Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 15:05:52 (848)

2001-10-30 15:05:52# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög þörfu máli, þ.e. að tryggja að áfram verði til ríkisútvarp á Íslandi sem tryggi öllum landsmönnum þjónustu á tveimur rásum og eins sjónvarpsefni.

Menn hafa talið að á Ríkisútvarpið mætti treysta í þeim efnum að það tryggði öllum landsmönnum nokkuð sambærilega stöðu til að nálgast það efni sem flutt er í útvarpi með góðu dreifikerfi þannig að tryggt sé að útsendingar nái til sem flestra landsmanna.

Mig langar að gera að umræðuefni mál sem tengist þessu, þ.e. sparnaðaraðgerðir sem gripið hefur verið til hjá Ríkisútvarpinu að undanförnu. Að þessu sinni ætla ég ekki að ræða sérstaklega um landshlutaútvarpið heldur það að á undanförnum árum hefur verið séð til þess af hálfu Ríkisútvarpsins að fréttatímar þess væru sendir til sjómanna og Íslendinga í öðrum löndum á sérstakri tíðni, stuttbylgju. Þannig hefur það verið í mörg ár. Ég hygg að það hafi verið um 1984 sem útsending á töluðu máli hófst á stuttbylgju. Fram að því höfðu þessar sendingar frá Ríkisútvarpinu farið eftir svokölluðum morsleiðum, meðan loftskeytamenn voru enn þá starfandi á stórum hluta íslenska skipaflotans.

Frá árinu 1984, að ég held, hefur töluðu máli verið útvarpað á stuttbylgjutíði, á um 11.000 og 13.000 kílóriðum ef ég man rétt. Þessar sendingar hafa verið ætlaðar til þess að tryggja sjómönnum á fjarlægum miðum fréttir frá Ríkisútvarpinu, bæði innlendar og erlendar. Einnig berast þær fréttir til flugáhafna sem hafa verið starfandi erlendis og ferðamanna, nánar tiltekið allra þeirra sem á annað borð hafa borið sig eftir viðtækjum sem gætu tekið á móti þessum sendingum.

Lengi var þetta sent á tveimur rásum, eins og ég gat um áður, en í sparnaðarskyni var ákveðið á sl. ári að senda þetta fréttaefni út á aðeins einni rás. Síðan ber svo við, núna 4. september hygg ég að það hafi verið, að Ríkisútvarpið hættir alfarið að senda fréttir á stuttbylgju bæði til Evrópu og Ameríku. Það hefur orðið til þess að m.a. sjómenn á fjarlægum miðum hafa ekki getað hlustað á fréttir Ríkisútvarpsins. Eftir því sem ég kemst næst þá gæti Ríkisútvarpið verið að spara um 100--140 þús. kr. á mánuði með þessum niðurskurði.

Ég verð að segja að það er afar leitt þegar þannig er komið að Ríkisútvarpið sér sér ekki lengur fært að viðhalda þjónustu sem það hefur veitt í áratugi, m.a. útsendingu fréttaefnis á stuttbylgju til annarra landa og sjómanna á hafi úti. Þarna er sparað um of að mínu viti. Hins vegar er verið að skera niður starfsemi Ríkisútvarpsins með því að Ríkisútvarpinu eru ekki tryggðar eðlilegar tekjur. Út á það gengur sú tillaga sem hér er flutt af hv. þm. Sverri Hermannssyni, að tryggja að rekstur Ríkisútvarpsins verði áfram í eigu íslensku þjóðarinnar og tryggja að landsmenn allir, hvort sem þeir eru staddir á hafi úti eða erlendis, geti alla vega náð þessu fréttaefni. Eins er mikilvægt að vítt og breitt um landið geti menn hlustað á rásir útvarpsins.

Það eru náttúrlega öfugmæli þegar hv. þm. Halldór Blöndal heldur því fram að í þessari tillögu felist einhver andstaða gegn svæðisútvörpum úti á landi. Það segir beinlínis hér í b-lið upptalningarinnar, með leyfi forseta:

,,Horfið verði frá hugmyndum um sölu á Rás 2 frá Ríkisútvarpinu vegna þarfa landshlutaútvarps og annars efnis sem þykir æskilegt að aðgreina frá dagskrá Rásar 1.``

Þetta er algert öfugmæli eins og ýmislegt annað sem hv. þm. tekst þessa dagana að lesa úr meiningu og tillöguflutningi manna, þegar hann reynir að túlka skoðanir annarra.

Ég tel að Ríkisútvarpið sé verðmæti fyrir íslenska þjóð og það eigi að halda Ríkisútvarpinu áfram í eigu ríkisins og tryggja þar með bæði Rás 1 og Rás 2 og sendingar sjónvarps vítt og breitt um landið og að allir landsmenn sitji þar við sama borð. Til þess þarf að tryggja Ríkisútvarpinu tekjur og hér er lagt til að það verði beinlínis gert á fjárlögum.