Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 15:18:05 (852)

2001-10-30 15:18:05# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Þessi till. til þál. sem hv. þm. Sverrir Hermannsson flytur er allra góðra gjalda verð. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fögnum því að sjálfsögðu, eins og margoft hefur komið fram hér í þingsölum, ef menn vilja styðja við bakið á rekstri ríkisútvarps í landinu. Það eru að vísu hlutir í greinargerðinni sem maður gæti gert athugasemdir við en þær kæmu þá fram við umfjöllun í nefndum.

Ég vil t.d. staldra við það að Ríkisútvarpinu væri ekki heimilt að auglýsa. Ég held að það sé mikilvægt fyrir landið okkar allt að t.d. ýmiss konar tilkynningar sem eru ígildi auglýsinga berist út yfir allt landið þannig að skilaboðin séu klár og skýr. Það er í mínum huga mjög nauðsynlegt og styrkir okkar menningarlegu arfleifð og þjappar okkur saman sem einni þjóð. Þannig tel ég að þarna séu atriði í þáltill. sem þarf að athuga betur.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum margoft lagt fram tillögur til betrumbóta á rekstri þannig að betur væri stutt við bakið á Ríkisútvarpinu, m.a. með tillögum um fjárframlög til Ríkisútvarpsins. Það er sorglegt að horfa upp á að það virðast vera ýmis öfl hér í þjóðfélaginu sem vilja sjá máttinn dreginn úr þessari stofnun. Við höfum t.d. séð það úti á landi --- þar er gjarnan byrjað þegar verið er að draga úr ríkisrekstri eins og við höfum séð á mörgum öðrum sviðum. Þannig er t.d. með svæðisútvarpið á Akureyri. Það var stofnun sem á blómatíma sínum var með um tólf starfsmenn, tíu full stöðugildi, en er nú komin niður í sex stöðugildi. Það var draumur okkar allra sem vildum styrkja svæðisstöðvarnar að þær gætu gegnt lykilhlutverki og mættu eflast til þess að búa til dagskrárefni sem gæti síðan kúplast inn á landsrásina, ekkert endilega staðbundið. En staðan er sú að sum öfl hér í þjóðfélaginu vilja þessa starfsemi í burt.

Umræðan sem verið hefur um Ríkisútvarpið upp á síðkastið er að mörgu leyti eðlileg vegna þess að þeir sem hafa haslað sér völl á markaðnum staðbundið eða þjónað stærri eða smærri svæðum eru að upplifa samdrátt og halda að með því að Ríkisútvarpið hætti starfsemi sinni fái þeir stærri hluta af auglýsingakökunni. Þetta er þó engan veginn í hendi og við megum ekki missa sjónar á því að Ríkisútvarpið gegnir lykilhlutverki í okkar landi.

Ég tel að það sé styrkur Ríkisútvarpsins að vera undir Alþingi og vera sett undir stjórn héðan. Ég sé ekkert slæmt við það að fulltrúar pólitískra flokka eða afla í samfélaginu hafi hönd í bagga með rekstri á slíkri stofnun. Við höfum nefnilega skýrar hugmyndir um skyldur þessarar stofnunar. Og þær eru náttúrlega fyrst og fremst fólgnar í að þjóna landinu öllu og miðunum. Ég tel að það sé nauðsyn fyrir landið að hafa útvarps- og sjónvarpsstöðvar sem geta leyft sér að vera metnaðarfyllri en takmarkaðar stöðvar geta vegna smæðar sinnar í langflestum tilvikum. Það er alveg sama hvort við tölum um stöðvar sem eru erlendis eða stöðvar sem hafa haslað sér völl hér.

Ég tel að það hafi að mörgu leyti verið mjög gott fyrir alla landsmenn að Ríkisútvarpið hefur fram að þessu getað ráðið til sín metnaðarfullt fólk sem hefur á metnaðarfullan hátt sett upp dagskrá sem sumum hefur kannski ekki líkað en öðrum hefur líkað, og maður hefur fengið pata af og komist í tæri við dagskrá sem ekki er flutt í jafnríkum mæli á þeim stöðvum sem þurfa að byggja á vinsældum hverju sinni og kannski bara að mestu leyti tónlist, og þá dægurtónlist hvers tíma.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi tillaga sé góðra gjalda verð og ég el þá von í brjósti að við, sem flestir þingmenn hér, getum náð saman um það að styrkja Ríkisútvarpið. Það er alveg augljóst að meiri fjárframlög þurfa að koma til og að endurskoða þarf gjaldskrá fyrirtækisins. Það þarf að efla svæðisstöðvarnar og gera þennan rekstur þannig að hann sé metnaðarfullur fyrir landið allt og miðin. Það held ég að sé meginmálið.

Í dag er orðið tiltölulega auðvelt og ekki mjög kostnaðarsamt að setja upp útvarpsstöð ef maður hefur ekki önnur markmið en þau að þjóna einhverju afmörkuðu svæði. Það kostar örfáar milljónir. Menn mega ekki láta glepjast af kostnaðinum við tæknina bara því að auður Ríkisútvarpsins er auðvitað starfsfólkið sem þar vinnur, starfsfólkið sem býr til dagskrána, starfsfólkið sem hefur tækifæri til að afla frétta og útbúa fréttir á þann hátt sem við gerum kröfu til. Og til þess þarf starfsumhverfi sem starfsfólkið sættir sig við. Það þarf að geta unnið að sínum málum og þetta kostar fjármuni. Ef við ætlum að hafa metnaðarfulla stöð í landinu sem uppfyllir þessar kröfur þarf einfaldlega að standa betur við bakið á Ríkisútvarpinu og svæðisstöðvunum og auðvitað sjónvarpinu með.