Áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 15:47:21 (855)

2001-10-30 15:47:21# 127. lþ. 16.10 fundur 9. mál: #A áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hér hefur hv. þm. Jóhann Ársælsson mælt fyrir till. til þál., sem hann flytur ásamt hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem felur það í sér að kalla eftir áfangaskýrslu frá verkefnastjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þar sem helstu virkjunarkostir sem taka þarf ákvarðanir um á næstu missirum verði metnir. Og síðan að stjórnvöld taki mið af niðurstöðum áfangaskýrslunnar við val nýrra virkjunarkosta þar til rammaáætlunin hefur tekið gildi.

Eins og kom fram í máli hans er þessi vinna öll í gangi og það hefur komið áður fram á hv. Alþingi að áfangaskýrslan komi í lok árs 2002. Hins vegar kemur núna um áramótin ákveðin milliskýrsla þar sem fjallað er um 10--12 vatnsaflsvirkjanir. En þetta verkefni er ákaflega umfangsmikið og kallar á mjög mikla vinnu og ég veit að það er unnið vel í þeirri verkefnastjórn sem hér hefur verið vitnað til.

Ég vil taka fram út af því sem hv. þm. sagði að ekki er hægt að samþykkja þáltill. þessa efnis meðan lögin um raforkuver eru óbreytt vegna þess að þar kemur fram, svo ég lesi bara, með leyfi forseta, 3. gr.:

,,Röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum skal ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar og skal þess gætt að orkuöflunin verði með sem hagkvæmustum hætti fyrir þjóðarbúið. Við val á virkjunarkostum skal einnig leitast við að auka öryggi í vinnslu og flutningi á raforku um landið. Áður en iðnaðarráðherra ákveður röð framkvæmda skulu liggja fyrir greinargerðir frá Landsvirkjun, Orkustofnun og öðrum aðilum sem hann kveður til.``

Þannig hljóðar nú þessi grein í raforkulögunum og hún segir okkur að Landsvirkjun hefur nánast þær skyldur að afla orku til þeirra fyrirtækja sem kalla eftir slíku. Um það snýst málið og að þessu hefur þetta fyrirtæki verið að vinna og það vill svo til að nú um þessar mundir er eftirspurnin meiri en oft hefur verið og tel ég það gleðiefni. Það getur verið umdeilt hvort svo sé, en ég tel það gleðiefni að hér skuli vera áhugi fyrir að fjárfesta í stóriðju. Allir sjá að það skapar störf en ég ætla nú ekkert að fara dýpra út í það því það er mál sem ekki er samstaða um og ég ætla ekki að vekja upp þá umræðu alla. En svona lít ég á þetta mál.

Það var ekkert annað en góður hugur að baki því að fara út í þessa mikilvægu vinnu og sá hugur er til staðar. Við verðum bara að sjá til hvernig þessu vindur fram því skyldurnar höfum við, samkvæmt lögum í dag, til að vinna að málum eins og við erum að gera, bæði stjórnvöld, að mínu mati, og eins fyrirtækið Landsvirkjun.

Hv. þm. gerði svona frekar lítið úr því fannst mér að hann teldi að hægt væri að ná sátt um þessi mikilvægu mál og kannski er það rétt hjá honum að það verði ekki þægilegt. Engu að síður skulum við ekki ákveða neitt fyrir fram í þeim efnum.

Ég vil ítreka að ég tel að unnið sé samkvæmt lögum að þessu verkefni og ég bind miklar vonir við verkefnisstjórnina um rammaáætlun og það sem þar kann að verða niðurstaðan. Í sjálfu sér hef ekki mikið meira um það að segja á þessu stigi.