Áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 16:00:41 (860)

2001-10-30 16:00:41# 127. lþ. 16.10 fundur 9. mál: #A áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ræðu hæstv. iðnrh. langar mig til þess að koma því á framfæri að auðvitað gerum við þingmenn okkur allir grein fyrir því að Landsvirkjun er stofnuð til þess að búa til rafmagn, m.a. fyrir stóriðju á sínum tíma. En það breytir ekki því að Landsvirkjun er háð því að fá virkjanaleyfi hverju sinni. Það sem verið er að kalla eftir í þessari þáltill. er reyndar búið að kalla eftir á ýmsan hátt hér í þinginu.

En ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Vilja menn bara nokkuð svona heildaryfirsýn og mat á hlutunum? Er það ekki það sem þetta snýst um? Vegna þess að maður hefur nú heyrt af ýmsum sem áhrif hafa í stjórnarflokkunum að það þurfi hreinlega, áður en farið er í einhverjar slíkar bollaleggingar, að koma þessum stóru áformum sem nú eru í farvatninu í gang fyrst.

Ef upplegg ráðherrans er slíkt að Landsvirkjun sé bara skylt að skaffa orku, hvað ætlar þá hæstv. ráðherra að gera á grunni stefnunnar fyrstir koma, fyrstir fá? Ef fjórir vilja búa til Reyðarálsverksmiðju eins og nú er í farvatninu á þá Landsvirkjun að keyra upp afl með kolum? Því það liggur alveg ljóst fyrir að þá verður ekki orka til eða orkumöguleikar í landinu.

Við þessu verðum við að fá svör frá hæstv. ráðherra, þ.e. varðandi þetta slugs og seinagang í þessari vinnu sem margoft hefur verið beðið um. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vorum t.d. með þingmál í fyrra, till. til þál. um sjálfbæra orkustefnu. Hún fékkst ekki rædd. Menn á stjórnarheimilinu hafa einfaldlega ekki áhuga á að ræða þessi mál og reyna að skapa sér framtíðarstefnu um hvernig við eigum að fara í orkuvinnslu og orkunotkun í landinu.

Herra forseti. Ég spyr: Er það ekki tilfellið að ríkisstjórnin ætlar sér hreinlega að koma þeim málum fram sem núna eru á teikniborðinu og síðan kannski að skoða eitthvað í þessum dúr?