Áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 16:02:45 (861)

2001-10-30 16:02:45# 127. lþ. 16.10 fundur 9. mál: #A áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur alltaf verið ljóst hvað varðar Kárahnjúkavirkjun að hún er ekki inni í þessu ferli. Það er nú bara eins og það er.

En ég tel að ekki sé rétt að halda því fram að seinagangur sé í þessu starfi. Þetta er mikið starf. Frábær maður leiðir það sem heitir Sveinbjörn Björnsson og allir þekkja.

Ég held að menn megi heldur ekki hafa oftrú á þessu verkefni. Það er nú svo að hið pólitíska vald í landinu ákveður hlutina alltaf endanlega. Menn geta ekki búist við því að þessi rammaáætlun verði þannig fram sett að þing, pólitískir stjórnmálaflokkar og valdhafar komi ekkert að málum, þetta verði bara listað upp í rammaáætlun og þar með séu allir hlutir leystir. Ég held að þetta sé kannski dálítið stórt atriði í málinu. En þeir sem ekkert vilja gera nota það náttúrlega sem skjól að benda alltaf á rammaáætlunina af því það er þó alla vega frestur fyrir þá sem ekki vilja framkvæma. Ég er ósammála því. Ég tel, og bendi nú aftur á lögin í því sambandi, að við munum halda áfram að leysa þau verkefni sem berast og þær fyrirspurnir og óskir eftir orku eins og við getum þó að við getum aldrei fullyrt að það muni takast að öllu leyti.

Eins og lögin eru í dag hefur Landsvirkjun miklar skyldur. En svo vitum við líka að við erum að fara inn í gjörbreytt raforkulagaumhverfi ef Alþingi samþykkir frv. sem nú kemur brátt fram og þar með verður miklu meira frjálsræði í þessum efnum. Eins getum við verið að horfa fram á það áður en mjög langur tími líður að jafnvel erlend fyrirtæki af Evrópska efnahagssvæðinu verði þátttakendur í virkjanaframkvæmdum á Íslandi.