Áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 16:24:37 (866)

2001-10-30 16:24:37# 127. lþ. 16.10 fundur 9. mál: #A áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[16:24]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Ég lýsti því yfir áðan í andsvari við hæstv. iðnrh. að ég teldi mjög tímabært að þessari vinnu um rammaáætlun yrði hraðað eins og hugur stjórnvalda stóð til. En ég sagði jafnframt í andsvarinu, og ég vil árétta það, að ég held að það sé ekki mikill áhugi á framgangi málsins. Ég held að stefnan sé sú á stjórnarheimilinu að koma í framkvæmd þeim verkefnum sem eru í augsýn, eru á teikniborðinu núna, og síðan megi e.t.v. skoða rammaáætlunarmál. Og því var ekki andmælt.

Það gefur augaleið að lögin um Landsvirkjun setja fyrirtækinu miklar skyldur á herðar. En ég vil árétta að auðvitað fer Landsvirkjun eftir landslögum og þarf að fá leyfi fyrir öllum sínum framkvæmdum eins og aðrir í okkar samfélagi þannig að ekki er hægt, eins og hæstv. ráðherra gerði, að skýla sér á bak við það að Landsvirkjun beri að skaffa hverjum sem vill þá orku sem hann þarf. Þetta gengur ekki fyrir sig á þennan hátt og er undansláttur. Það á ekki að ræða málin á þessum grunni.

Ég vil jafnframt benda á að fram er kominn fjöldi tillagna um það hvernig eigi að fara í þessi mál. Ég nefndi til sögunnar áðan till. til þál. frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og þeim sem hér stendur um sjálfbæra orkustefnu. Þar er einmitt farið ítarlega yfir það hvað við sjáum fyrir okkur varðandi sjálfbæra orkustefnu. Við förum í greinargerð með þeirri þáltill. yfir vinnuferlið sjálft, sem svona rammaáætlun byggir á. Margt þarf þar að taka til umfjöllunar, t.d. magn hagnýtrar orku hérlendis, þar sem menn greinir e.t.v. eitthvað á um hvað framtíðin beri í skauti sér vegna betri tækni til nýtingar o.s.frv. En það liggur nokkuð ljóst fyrir hvað við getum vænst að framleiða af orku hér í landinu.

Við þurfum að velta fyrir okkur umhverfisáhrifum af orkunotkun í þessari rammaáætlun. Eins og ég sagði áðan þurfum við að gera okkur hugmyndir um hvað við viljum nýta af þeirri nýtanlegri orku sem er til staðar í landinu. Hv. þm. Þuríður Backman benti á að full samstaða er um það meðal þjóðarinnar að virkja ekki Gullfoss og virkja ekki Dettifoss. En samt verða menn að átta sig á því að uppi eru tillögur um Arnardalslón fyrir norðan og þar með að taka Dettifoss austur um eða það vatn sem nærir þann foss.

Fyrir þinginu liggur núna frv. til orkulaga sem byggir á gjörbreytingu vegna tilskipunar Evrópusambandsinsog ef að líkum lætur þá er það undanfari hlutafélagavæðingar og síðan einkavæðingar. Að örfáum árum liðnum, ef menn fara í einkavæðingu á þessum framleiðsluþætti í landinu, þá vitum við hvert stefnir og hvað menn vilja þegar kemur til kasta beinharðra peninga í viðskiptum. Við gætum lent á flótta í ákvarðanatöku um það t.d. hvort virkja ætti Gullfoss í harðæri sem gæti skapast að 10, 20 árum liðnum eða eitthvað því um líkt. Því er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara í þessa vinnu við rammaáætlun og margt þarf að skoða í því máli.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur bent á að stórverkefni bíður okkar við notkun á innlendri orku í staðinn fyrir innflutt eldsneyti. Hingað er flutt gríðarlega mikið eldsneyti sem við kaupum dýrum dómum frá útlöndum. Þetta þarf allt að skoða, t.d. mismunandi leiðir til vistvænna orkugjafa, eflingu á innlendum rannsóknum og þróun sem mjög er kallað á í samfélaginu. Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því hvaða stöðu við viljum sjá í þessum málaflokki bara að aldarfjórðungi liðnum. Tuttugu og fimm ár eru ekki lengi að líða. Viljum við standa frammi fyrir því að vera búin að nota alla ódýrustu virkjanakostina kannski í fjögur, fimm verkefni, án þess að hafa hugsað okkur um og gert nokkurn ramma um það hvert við stefnum í þessum málum? Hlutirnir gerast hratt. Menn bíða í biðröðum og það leiðir til þess að menn eru á handahlaupum með hönnun á virkjunum, t.d. Urriðafoss, Gnúpavirkjun og stíflur við Norðlingaöldu, til þess að auka vatnsmagnið. Þetta ber einkenni óskipulagðra vinnubragða, auðvitað. Það er verið að bregðast við því að fyrstir koma, fyrstir fá og það verður leyst.

Það fer ekki hjá því, ef menn gera ekki heildstæða áætlun um það hvernig þeir ætla að fara í þessa auðlind, að við verðum á þessum flótta og gerum stærri mistök en við getum sætt okkur við að örfáum árum liðnum. Það er í þessu ljósi sem við verðum að skoða þessi mál.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum. Ég held að við stöndum frammi fyrir þeirri sorglegu staðreynd að núverandi ríkisstjórn Íslands hefur engan áhuga á þessari vinnu að svo komnu máli. Hún vill keyra áfram þessi mál sem eru á teikniborðinu og hafa til þess tvö, þrjú ár sem það tekur að setja þessi stóru verkefni í gang og síðan að fara í einhvers konar skoðun á þessum málum. Þetta er afleitt. Við köllum eftir því --- og ég styð þessa þáltill. að því leytinu til --- að í gang fari heildstæð vinna, heildstæð sýn til langrar framtíðar um hvernig við ætlum að standa að orkuöflun og orkuvinnslu í landinu.