Áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 16:31:32 (867)

2001-10-30 16:31:32# 127. lþ. 16.10 fundur 9. mál: #A áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# þál., Flm. JÁ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið hérna fram um þessa þáltill. Það hafa verið jákvæðar undirtektir við hana af öllum nema hæstv. ráðherra. Það kom mér á óvart hvað hæstv. ráðherra var neikvæð. Þá er ég að tala um það sem hún lét frá sér fara um rammaáætlunina. Niðurstaða mín af þeim orðum er sú að hæstv. ráðherra telji að rammaáætlunin muni eiginlega ekki breyta neinu. Það er atriði sem menn hljóta að spyrjast nánar fyrir um og fara í gegnum í framhaldinu vegna þess að ég held að allir landsmenn sem hafa eitthvað fylgst með þessu hafi reiknað með því að rammaáætlunin ætti einmitt að breyta miklu, hún ætti að skapa þá sátt sem menn hafa verið að kalla eftir um það hvernig við færum í virkjanir á Íslandi og í hvaða röð við tækjum mögulega virkjunarkosti.

Það hefði verið gaman, og ég held til að upplýsa menn hér, ef hæstv. ráðherra hefði sagt eitthvað um það hvort hún teldi að t.d. Norðlingaölduveita væri hluti af þessum 12 möguleikum á líklegum virkjunarkostum sem hún lét liggja að hér að kæmu um áramótin frá þessum starfshópi.

Ég tel að frá hendi hæstv. ráðherra hafi ekki verið neinn vilji til þess að létta umræðuna. En það hefði líka verið fróðlegt að vita hvort full samstaða væri í ríkisstjórninni um að skoða ekki aðra kosti en Norðlingaölduveitu, að enginn annar kostur væri skoðaður í staðinn fyrir hana. Það hefur legið fyrir mjög skýr yfirlýsing frá hæstv. landbrh. um að aldrei yrði virkjaður fersentimetri af þessu svæði. Það er þá nýtt ef hæstv. landbrh. hefur tekið nýja stefnu í því máli því það kom mjög skýrt fram hjá honum þegar hann bauð sig fram til varaformanns Framsfl. að þetta væri stefna hans í málinu. Því miður er hæstv. landbrh. ekki hér þannig að hann getur ekki svarað því núna hvort hann hafi breytt um stefnu. En menn hljóta að ganga eftir því við hann í framhaldinu.

Það sem ég var að segja um þessa hluti var ekki það að ég væri á móti því að virkjað yrði til þess að skapa Norðuráli raforku. Það er ég ekki. Ég tel hins vegar að verið sé að stefna málum í óefni með því að Landsvirkjun setji allt sitt traust á það að hún fái að virkja við Norðlingaölduveitu. Ég tel að full ástæða sé til þess fyrir Landsvirkjun að gera ráð fyrir því að þurfa á öðrum kostum að halda. Það er ekki nóg fyrir hv. Alþingi að standa frammi fyrir því að það verði búið að undirbúa þessa virkjun og að hér þurfi menn að svara því hvort þeir vilji virkja þar eða ekki, því annars verði ekki af neinum samningum við Norðurál. Menn vita að fjölmargir möguleikar eru til virkjana á þessu svæði sem hægt er að grípa til og undirbúa. Norðurál var rétt að klára núna þá stækkun sem hefur verið þar í undirbúningi. Það er ekki búið að undirbúa þessa stækkun Norðuráls sem nú er verið að tala um og það mun auðvitað taka tíma.

Hvort ráðist verður í þessa Norðlingaölduveitu eða aðrar virkjanir á þessu svæði mun ekki tefja þetta mál svo neinu nemur vegna þess að Norðlingaölduveita dugar ekki. Hún dugar ekki fyrir þeirri stækkun sem þarna er verið að ræða um.

Þetta eru hlutir sem ég tel fulla ástæðu til að skoða nánar. Mér finnst það dapurleg niðurstaða af þessari umræðu að við skulum standa frammi fyhrir því að hæstv. iðnrh. sé nánast að segja okkur að það verði keyrt áfram með kíkinn fyrir blinda auganu, a.m.k. alveg þangað til búið er að taka ákvarðanir um næstu líklegar virkjanir og stóriðju á Íslandi. Það er að bætast í. Við sjáum núna að það eru komnir nýir aðilar og það gætu komið nýir og nýir á hverjum degi á næstunni út á það sem hv. 5. þm. Austurl. var að nefna áðan, þ.e. að sú breyting sem getur orðið á fyrir Íslendinga hvað varðar Kyoto-bókunina, að þeir fái tækifæri til að auka útblástur, þýðir að fjölmörg svona fyrirtæki sækja nú hingað. Því held ég að ástæða sé til þess að menn verði búnir að búa til dagatalið fyrir Ísland um það hvenær og hvar eigi að virkja í framtíðinni og hversu langt menn ætla að ganga.

Ég segi bara að lokum, og það skulu vera lokaorð mín í þessari umræðu, að ég hafði vonast til þess að á meðan sá tími líður þangað til rammaáætlunin verður til, sem átti að vera stærsta sáttainnleggið í þetta, þá færu menn ekki út í að taka ákvarðanir um að virkja á mjög umdeildum stöðum á Íslandi. Ég hélt að það væri skilningur á þessu. Sem betur fer er ekki langur tími sem er fram undan þangað til rammaáætlun liggur fyrir. En mér virist stefna í óefni hvað þetta varðar.