Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 16:38:32 (868)

2001-10-30 16:38:32# 127. lþ. 16.11 fundur 10. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga sem snýr að Lífeyrissjóði sjómanna og greiðslum iðgjalda í lífeyrissjóðinn.

Frumvarpið er um breytingu á lögum nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna og 1. gr. þess hljóðar svo:

,,1. mgr. 5. gr. laganna verður svohljóðandi:

Iðgjald til sjóðsins skal nema 12% af heildarlaunum og greiðir launþegi 4% og launagreiðandi 8%.

Eins og vitað er greiðir launagreiðandinn almennt til lífeyrissjóða í dag, eða margra lífeyrissjóða, 6% og launþeginn 4%, samanlagt 10%. Þarna er því verið að leggja til að auka tímabundið inngreiðslu í sjóðinn um 2%.

Svo er sagt í 2. gr. að lög þessi öðlist þegar gildi ef samþykkt verða. Þá er í frv. ákvæði til brb., svohljóðandi:

,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna mynda tvö prósentustig af greiðslu launagreiðanda ekki réttindi til lífeyris fyrr en tryggingafræðileg úttekt sýnir að Lífeyrissjóður sjómanna getur staðið undir framtíðarskuldbindingum sínum.``

Frv. fylgir svofelld greinargerð sem ég ætla að vitna í af og til:

Frumvarp sama efnis var flutt á 126. löggjafarþingi en varð eigi útrætt og er því endurflutt.

Um alllangt skeið hafa eignir Lífeyrissjóðs sjómanna ekki staðið undir framtíðarskuldbindingum sjóðsins samkvæmt tryggingafræðilegu mati. Stjórn sjóðsins hefur leitað leiða til að minnka muninn milli eigna hans og skuldbindinga. Í nokkur skipti, eins og okkur er reyndar kunnugt á Alþingi, hafa verið gerðar lagabreytingar sem allar hafa haft í för með sér mikla skerðingu á lífeyrisréttindum sjóðfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna.

Þó að lagasetningin hafi yfirleitt snúið beint að lögunum um Lífeyrissjóð sjómanna, vegna þess að um hann gilda sérlög, þá hafa lífeyrissjóðir annars staðar á landinu sem hafa haft sjómenn innan sinna vébanda, m.a. á Vestfjörðum, Austfjörðum, í Vestmannaeyjum og víðar, oftast nær fylgt á eftir þeim aðgerðum varðandi sjómannadeildir sínar sem gerðar hafa verið í Lífeyrissjóði sjómanna. Því er frv. samið sérstaklega með Lífeyrissjóð sjómanna í huga að hann hefur verið leiðandi í því hvernig þessar viðmiðunarreglur eru varðandi réttindi og útgreiðslur í lífeyrismálum sjómanna almennt og þau ákvæði þá verið tekin upp af stjórnum í viðkomandi lífeyrissjóðum. En þó að hér sé talað um Lífeyrissjóð sjómanna má segja sem svo, eins og ég kem síðar að í máli mínu þegar ég minnist á ávöxtun lífeyrissjóða almennt, sérstaklega þegar þeir tryggja sjómenn, að menn hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að gera svipaða hluti og stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hefur neyðst til að taka á.

Í greinargerðinni segir að þrátt fyrir þetta vanti enn um 4.494 millj. kr., þ.e. þrátt fyrir þær aðgerðir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum og miðað hafa að því að lagfæra stöðu lífeyrissjóðsins en hafa orðið til þess að skerða réttindi lífeyrisþeganna. Þrátt fyrir það vantar enn þá 4.494 millj. kr. eða eða 6% til þess að eignir sjóðsins standi undir skuldbindingum hans samkvæmt tryggingafræðilegu mati miðað við árslok 2000, en halli sjóðsins árið á undan, þ.e. á árinu 1999, var 2.185 millj. kr. eða um 3,2%. Með viðvarandi halla sjóðsins yfir 5% verður lögum samkvæmt að grípa til ráðstafana sem felast í enn frekari lækkun réttinda sjóðfélaga ef engar viðbótargreiðslur koma til. Eins og menn vafalaust muna í hv. Alþingi voru sett lög um almenna starfsemi lífeyrissjóða árið 1997 og í þeim lögum segir á þá leið, ef ég man rétt, að stjórnum lífeyrissjóða beri að aðhafast eitthvað til þess að tryggja stöðu lífeyrissjóðanna. Venjulega er nú ekki hægt að grípa til nema tvenns konar aðgerða, þ.e. annaðhvort að auka inngreiðslur í lífeyrissjóðinn ef lífeyrissjóðurinn á ekki fyrir réttindum sínum og þá til þess að laga stöðu hans án þess að bein réttindainnfærsla komi á móti eins og hér er lagt til, eða þá að stjórnarmenn í lífeyrissjóði samkvæmt þeim lögum neyðast til að grípa til aðgerða sem skerða lífeyrisréttindi og laga þar af leiðandi stöðu sjóðsins.

Ef ég man rétt þá er ákvæðið þannig að á meðan sjóðurinn á fyrir yfir 95% af skuldbindingum sínum þá þarf stjórnin ekki að aðhafast neitt. En þegar að því kemur að lífeyrissjóður er ekki talinn eiga fyrir meira en á milli 90 og 95% af skuldbindingum sínum þá kemur viðvörun og menn þurfa að meta hvort þeir ætla að aðhafast eitthvað og verða þá að gera það a.m.k. ef óbreytt ástand varir um lengri tíma eða yfir fjögur ár. Stefni hins vegar niður fyrir það að lífeyrissjóður eigi fyrir 90% af skuldbindingum sínum þá ber stjórn viðkomandi lífeyrissjóðs --- sjái hann ekki fram á betri tíð og auknar inngreiðslur --- að grípa þegar í stað til aðgerða sem rétta stöðu lífeyrissjóðsins. Þessi lög um almenna starfsemi lífeyrissjóða í landinu kveða því mjög stíft á um að stjórnirnar hafa ákveðna ábyrgð á stöðu sjóðsins. Síðan má ekki aftur auka réttindin til sjóðfélaga fyrr en lífeyrissjóðurinn er kominn í yfir 105%, ef ég man rétt. Þá má sem sagt fara að greiða út. Frá því að menn detta niður fyrir 90% og þangað til þeir geta aftur farið að lagfæra réttindi sjóðfélaga þá þarf að auka eignastöðu sjóðsins um 15%.

[16:45]

Þetta er eitthvað sem ég hugsa að menn kannski þurfi að fara að skoða almennt miðað við hvernig staða lífeyrissjóðanna hefur verið að þróast á undanförnum missirum og verðtrygging þeirra skuldbindinga sem lífeyrissjóðirnir eiga í fjármunum sínum, hvort þetta bil er akkúrat það rétta og hvort það eigi að vera eins og það er í þessum lögum um almenna starfsemi lífeyrissjóða.

Það segir áfram, með leyfi forseta, í greinargerðinni:

,,Með því að hækka lögbundið framlag launagreiðanda í Lífeyrissjóð sjómanna um tvö prósentustig, án þess að lífeyrisréttindi sjóðfélaga aukist, er stigið mikilvægt skref í þá átt að brúa það sem upp á vantar til að sjóðurinn eigi fyrir framtíðarskuldbindingum sínum. Auk þess er það réttlætismál að launagreiðendur leggi fram sinn skerf og taki þátt í því að koma sjóðnum á réttan kjöl.``

Það er nefnilega þannig að atvinnurekendur eiga sæti í stjórnum lífeyrissjóða og bera, á meðan þeir sitja þar, á því ábyrgð að lífeyrissjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar og það er auðvitað markmið lífeyrissjóðanna að reyna að tryggja einhvern viðunandi rétt lífeyrisþeganna. Ýmis rök hníga því til þess að atvinnurekendur komi að þessu máli, m.a. með þeim tillögum sem hér eru lagðar til. Greiðslur Lífeyrissjóðs sjómanna vegna örorkulífeyris eru t.d. afar háar, sem er afleiðing af því hversu hættulegt sjómannsstarfið er, og á undanförnum árum hefur örorkulífeyrir komist nálægt 45% af heildarlífeyrisgreiðslum í Lífeyrissjóði sjómanna þegar sambærilegt hlutfall hjá öðrum lífeyrissjóðum er mun lægra og í sumum tilfellum allt niður í 20%. Þarna er Lífeyrissjóður sjómanna, og kannski aðrir lífeyrissjóðir sem hafa sjómenn innan sinna vébanda, í raun og veru að taka á sig mun meiri og þyngri ábyrgð en gerist almennt í öðrum lífeyrissjóðum. Þetta tengist auðvitað hárri slysatíðni sjómanna og hættulegu sjómannsstarfi en það hlýtur hins vegar að vera spurning á móti hvort útgerðinni sé þá ekki rétt ætlað að koma sterkar inn í þá stöðu sem komin er upp í Lífeyrissjóði sjómanna og jafnvel öðrum lífeyrissjóðum sem tryggja sjómenn innan sinna vébanda þar sem lífeyrissjóðurinn virkar svona stórt, m.a. í örorkuþættinum.

Ég lít a.m.k. svo á að séu útgerðarmenn ekki á nokkurn hátt tilbúnir til að koma að því vandamáli sem er núna í Lífeyrissjóði sjómanna eins og hér er lagt til --- en það vandamál stafar annars vegar af mjög hárri örorku, sem greidd er út í heildarlífeyrisgreiðslum, og hins vegar af þeim pakka sem var settur inn sem félagsmálapakki á sínum tíma varðandi 60 ára regluna en hefur aldrei fylgt nein fjárveiting --- sé vandinn aukinn. Ríkisvaldið og sjómannasamtökin deila --- í sjómannasamtökunum er talið að ríkisvaldið ætti að greiða um 1,3--1,4 milljarða inn í Lífeyrissjóð sjómanna ef lagfæra ætti þá ábyrgð sem fallið hefur á sjóðinn eftir að lögin um 60 ára regluna voru samþykkt hér samhljóða á Alþingi, um það að sjómenn mættu hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri. Núna eru í gangi málaferli við ríkisvaldið um það hvort ríkisvaldið eigi að bera ábyrgð á þeirri lagasetningu. Ef ekki, þá vantar því meira upp á.

Í frumvarpinu er lagt til að þessi hækkun á hlutfallslegri greiðslu launagreiðanda myndi ekki aukinn rétt til lífeyris fyrr en tryggingafræðileg úttekt sýnir að sjóðurinn getur staðið undir framtíðarskuldbindingum sínum. Þess í stað verði auknar greiðslur í sjóðinn af þessum toga notaðar til þess að brúa það sem upp á vantar hvað snertir skuldbindingar sjóðsins og framtíðarhagur sjóðfélaga þannig bættur. Jafnframt munu auknar greiðslur launagreiðenda verða til þess að stöðva enn frekari skerðingar á réttindum núverandi lífeyrisþega í Lífeyrissjóði sjómanna.

Í þessari lokasetningu í greinargerðinni tel ég að vikið sé að mjög áríðandi máli því að það eru jú þeir sem núna eru lífeyrisþegar í Lífeyrissjóði sjómanna sem mundu verða fyrir skerðingu ef hún kæmi til framkvæmda þegar á næsta ári.

Því miður hefur ávöxtun lífeyrissjóðanna á fjáreignum sínum verið slök á árinu 2000 og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég veit bestar eru ekki líkur til þess að Lífeyrissjóður sjómanna komi betur út á árinu 2001. Ekki skal ég segja um það hvort hann er neitt sérstakur í því tilliti, ég gæti vel trúað að það væru margir lífeyrissjóðir sem yrðu líka með neikvæða ávöxtun eigin fjár á árinu 2001. En á síðasta ári kemur Lífeyrissjóður sjómanna út með það að ávöxtunin er neikvæð um 0,5% þó að meðalávöxtun síðustu sex ára sé jákvæð um 6,8%.

Það segir fljótt til sín þegar ávöxtunin er ekki betri en þessi og þetta er ekkert einsdæmi hjá Lífeyrissjóði sjómanna því m.a. hjá Lífeyrissjóði Austurlands er ávöxtunin á síðasta ári mínus 4,3% og í Lífeyrissjóði Vestfirðinga er hún mínus 4,9%. Í Lífeyrissjóði Bolungarvíkur er hún mínus 5,9% og í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja plús 0,4%. Það er talið að það þurfi lágmark að vera ávöxtun upp á plús 3,5% til þess að menn haldi í við réttindaávinninginn og ekki hallist á varðandi réttindi manna.

Staðan gæti hreinlega orðið sú, þó að ég geti ekkert fullyrt um það, að þegar á næsta ári, á árinu 2002, stæði stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna frammi fyrir því að sjóðurinn ætti ekki fyrir nema innan við 90% af skuldbindingum sínum. Og þá kemur akkúrat upp sú staða sem ég vék að varðandi löggjöfina um heildarlífeyrissjóði í landinu, að sjóðstjórninni ber að aðhafast eitthvað þegar í stað. Og miðað við það að útgerðin neiti alfarið að leggja sjóðnum til aukið fé, eins og hér er lagt til, og axli þá ábyrgð að þeir eru jú stjórnarmenn í lífeyrissjóðnum --- það getur varla bara verið hlutverk stjórnarmanna að standa að skerðingum, að þeir beri enga aðra ábyrgð --- þá get ég ekki annað séð en að hér sé verið að flytja mál sem er afar nauðsynlegt að sé rætt og farið í gegnum.

Eins og ég gat um áður er staða Lífeyrissjóðs sjómanna og annarra lífeyrissjóða af tveimur ástæðum kannski verri en annarra. Í fyrsta lagi varðar það örorkuþáttinn og í öðru lagi skuldbindingar sem lagðar voru á sjóðinn um 60 ára regluna. Þó að búið sé að gera þá reglu hlutlausa núna er uppsafnaður vandi af henni, eins og ég gat um áður, 1,3--1,4 milljarðar bara í Lífeyrisjóði sjómanna.

Mér finnst ekki hægt að horfa á það þegjandi að þeir sem núna eru lífeyrisþegar hjá þessum lífeyrissjóðum þar sem þeir eiga kannski að meðaltali 20--40 þús. kr. lífeyrisrétt --- sjómenn byrjuðu ekki að greiða í lífeyrissjóð af öllum launum fyrr en 1987, þeir byrjuðu að greiða af hálfum heildarlaunum sínum 1985 og síðan 75% 1986 og að fullu 1987 en höfðu þar áður aðeins greitt af kauptryggingu og m.a.s. fyrstu árin eftir 1970 aðeins af hálfri hásetatryggingunni --- að þessir menn séu að eignast mjög lítil réttindi vegna þess að litlar inngreiðslur voru í sjóðinn. Og þetta eru einmitt mennirnir sem núna eru kannski farnir að taka lífeyri og munu á næstu fimm, sex árum verða lífeyrisþegar. Þetta eru mennirnir sem unnu alla sína ævi en greiddu fá ár í lífeyrissjóð og aðeins hluta af sinni starfsævi af öllum launum, og eiga nú lífeyrisrétt á bilinu 20--40 þúsund. Þeir yrðu fyrir skerðingunni ef það þyrfti að beita henni á næsta ári, enn aukinni skerðingu ofan í það sem þurfti að aðhafast fyrir tveimur árum.

Mér finnst ekki á bætandi og þess vegna tel ég afar brýnt að þetta mál fái vandaða umfjöllun og menn skoði það hvort ekki megi fara þessa leið til að laga stöðu lífeyrissjóðanna þannig að þeir lífeyrisþegar sem núna eru að taka út sinn lífeyri, lítinn lífeyri, verði ekki sérstaklega fyrir skerðingu. Það eru auðvitað allar líkur til þess að þó að nú sé neikvæð ávöxtun um tvö ár í lífeyrissjóðunum á fjármunum þeirra að meðaltali, miðað við það sem þyrfti að vera, þá eru líkur til þess að það vari ekki um langa framtíð og innan kannski eins árs eða jafnvel styttri tíma verði komin betri tíð varðandi ávöxtun á þessum fjármunum lífeyrissjóðanna. Við skulum a.m.k. vona það.

Meðan menn standa frammi fyrir núverandi ástandi er varla sanngjarnt að það verði borgað af lífeyrisþegum með sáralítil lífeyrisréttindi en fyrir síðari tíma lífeyrisþega, eftir kannski 5, 10 eða 15 ár, verði aftur komin upp sú staða að það verði hægt að auka við lífeyrisréttindin. Þá verði talan sem sagt komin í þessi 105%, lífeyrissjóðir eigi fyrir þeim skuldbindingum sínum og þá megi auka réttinn en að vandi sjóðsins sé tekinn út á tiltölulega fámennum hópi manna sem hefur lítinn lífeyrisrétt. Þetta tel ég að sé sanngirnismál og ég trúi því varla fyrr en ég tek á því að Landssamband íslenskra útvegsmanna, sem vafalaust verður í forsvari fyrir íslenska útvegsmenn í þessu máli, sé með þeirri hugsun að þeir eigi bara að sitja í stjórnum lífeyrissjóða og taka þar ákvarðanir sem eingöngu eru til skerðingar en að öðru leyti séu þeir ábyrgðarlausir þegar kemur að vanda lífeyrisþega. Ef sú verður niðurstaðan sé ég enga aðra leið en að flytja hér einhvern tíma frv., vonandi með sem flestum þingmönnum, um það að atvinnurekendur eigi ekkert erindi í stjórnir lífeyrissjóðanna.