Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 16:58:19 (869)

2001-10-30 16:58:19# 127. lþ. 16.11 fundur 10. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu brýnt hagsmunamál og réttlætismál. Hv. flutningsmaður, Guðjón A. Kristjánsson, hefur gert grein fyrir því út á hvað frv. gengur, að hækka iðgjöld til Lífeyrissjóðs sjómanna um 2 prósentustig og að útgerðarmenn axli tilkostnaðinn. En einnig fylgir ákvæði til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir að réttindi muni ekki aukast fyrr en tryggingafræðileg úttekt hafi sýnt að Lífeyrissjóður sjómanna geti staðið undir framtíðarskuldbindingum sínum.

Það kom einnig fram í máli hv. flm. hve erfið staða lífeyrissjóðsins er, að það vanti tæplega 4,5 milljarða kr. eða 6% til þess að eignir sjóðsins standi undir skuldbindingum samkvæmt tryggingafræðilegu mati við árslok 2000. Hann benti á að halli sjóðsins sé nú meiri en hann var árið áður en á árinu 1999 nam hallinn rúmum 2 milljörðum eða 3,2%. Reyndar var staða Lífeyrissjóðs sjómanna enn þá verri áður því að á árinu 1998 nam hallinn tæpum 10 milljörðum kr. eða 13,6%. Síðan, eins og fram kom í máli hv. þm., tók ávöxtun lífeyrissjóðanna kipp upp á við og staða sjóðsins batnaði en síðan hefur hallað undan fæti með þeim afleiðingum sem hér hafa verið tíundaðar.

Hvað hefur verið gert til þess að bregðast við þessum vanda? Jú, til kasta Alþingis kom þetta mál á árinu 1999. Þá voru samþykkt lög á Alþingi þar sem lífeyrisréttindi sjómanna voru skert um 11,5% og á þessu ári átti að koma til sögunnar enn meiri skerðing eða 12% um mitt árið 2001 þannig að vegna þessarar erfiðu stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna hefur þurft að skerða réttindi þeirra sem þessu nemur.

Hvers vegna er eðlilegt að ríkissjóður annars vegar og útgerðarmenn hins vegar komi að þessu máli og axli þá ábyrgð sem hv. flm. gerir kröfu til? Jú, mér fannst hann færa mjög haldgóð rök fyrir því. Í fyrsta lagi hefur Lífeyrissjóður sjómanna verið eins konar viðlagasjóður fyrir útgerðina. Lífeyrissjóðir í landinu greiða að jafnaði 20--25% af útgreiddum lífeyri í örorkubætur. Þessi hlutfallstala hjá Lífeyrissjóði sjómanna er 45%. Næstum því helmingur af öllum greiðslum úr sjóðnum gengur til örorkubóta og er sjóðurinn þess vegna eins konar viðlagasjóður fyrir útgerðina. Þetta er ein ástæðan fyrir því að útgerðarmönnum ber að koma að þessu máli.

Hvers vegna ætti ríkissjóður einnig að koma að málinu? Jú, þannig háttar til að ríkið hefur margoft komið að kjaramálum sjómanna, illu heilli nú nýlega, en t.d. á árinu 1981 var samið um svokallaðan félagsmálapakka. Sjómenn afsöluðu sér á þeim tíma 2--3% í fiskverði. Til sögunnar kom svokölluð 60 ára regla sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gerði grein fyrir, regla sem gekk út á það að sjómenn gætu hætt störfum 60 ára að aldri en ríkissjóður ætlaði þá að koma með fjármagn inn í sjóðinn til að standa straum af þessum kostnaði. Það var þáttur ríkisins í þessum félagsmálapakka. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar nam þessi upphæð sem hefði þurft að koma til sögunnar 1,3 milljarði kr., væntanlega á núvirði, og ég man ekki betur en við fyrri umræður þessa máls hafi hæstv. fjmrh. tekið því alllíklega að ríkið hlypi undir bagga enda öllum ljós ábyrgð ríkisins í þessu máli.

Þetta er ástæða þess að ég tel rök fyrir því að útgerðarmenn standi straum af þeim kostnaði sem hlýst af frv., þ.e. greiði þessi 2% til viðbótar inn í Lífeyrissjóð sjómanna, og einnig fyrir hinu að ríkið komi að þessu máli með fjárframlagi til Lífeyrissjóðs sjómanna.