Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 17:36:31 (875)

2001-10-30 17:36:31# 127. lþ. 16.19 fundur 185. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[17:36]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að leggja fram frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem snýr að kynferðisbrotum gegn börnum. Sérstaklega þakka ég fyrir þá vinnu sem er í gangi á vegum dómsmrh. og snýr að refsiákvæðum vegna kynferðisafbrota gegn börnum. Skýrsla sem var birt þingheimi á síðasta þingi hefur orðið til að staðfesta það sem marga grunaði og aðrir vissu að væri í gangi hér á landi. Ég held að okkur sé óhætt að líta til nágrannalanda okkar á hverjum tíma og hafa í huga að það sem er í gangi þar, bæði gott og slæmt, finnst hér á landi líka þó að umsvifin kunni að vera minni. Ef barnaklám tíðkast hjá nágrannalöndum okkar þá tíðkast það hér líka.

Ég hef svo sem ekki ákveðna athugasemd við frv. en vil þó óska eftir því að hv. allshn. skoði sérstaklega 1. gr. þar sem lagt er til að þeir sem greiða börnum yngri en 18 ára fyrir samræði eða önnur kynferðismök við börnin skuli sæta fangelsi allt að tveimur árum. Persónulega finnst mér þetta mjög vægur dómur og tillaga um væga refsingu. Þó að ég sé kannski ekki refsiglöð kona og telji að fangelsisvist sé ekki ávallt mannbætandi þá verða ákvæði um þyngd dóma að vera í réttu hlutfalli við alvarleika brotsins. Og þegar það snýr að börnum þá eru kynferðisafbrot mjög alvarleg.

Ég vil benda á að hér hefur verið dreift skjali, sem er 22. mál þingsins, frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Þar er 1. flm. Kolbrún Halldórsdóttir ásamt Steingrími J. Sigfússyni og mér, en þar leggjum við til að hver sá sem greiðir fyrir kynlífsþjónustu af einhverju tagi skuli sæta fangelsi í allt að fjögur ár. Þetta á við fullorðna líka. Ég vil bara vísa til þeirrar sýnar að þegar þetta snýr að börnum þá skulum við líta til þess að hegningin sé strangari en þegar kynlífsafbrot eiga við fullorðna.

Ég þakka annars fyrir og fagna þeirri vinnu sem er í gangi og vona að fleiri frv. og breytingar á þessum málum sjái dagsins ljós á þessum vetri.