Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 17:40:02 (876)

2001-10-30 17:40:02# 127. lþ. 16.19 fundur 185. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[17:40]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir stuðning þeirra við þetta frv. Ég tel mjög mikilvægt að við komum þessum lagabreytingum fljótt í gegnum þingið. Það er rétt sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir minntist á, að við vorum saman á fundi hjá Barnaheillum þar sem verið var að opna þennan nýja vef og óska eftir ábendingum frá almenningi í þessum málum. Það er ljóst að ef við ætlum að ná árangri gegn þessum alvarlegu afbrotum, þ.e. barnaklámi, þá þurfum við að standa saman.

Við þurfum samstillt átak sem flestra hér á landi ásamt því að efla alþjóðlegt samstarf. Sem betur fer hafa Íslendingar lagt sitt af mörkum í því sambandi og þannig get ég nefnt að sérstök þverfagleg nefnd sem starfar hjá ríkislögreglustjóraembættinu fer sérstaklega með rannsókn þessara brota og hjálpar til við að upplýsa þau. Þar að auki erum við í sérstöku samstarfi bæði við Interpol og Europol og bandarísk lögregluyfirvöld. Ég vænti þess að við munum ná einhverjum árangri á þessu sviði og er ekki vanþörf á. Því miður hefur netið opnað fyrir enn frekari afbrot af þessu tagi.

Mig langar aðeins til þess að víkja að athugasemdum síðasta ræðumanns og bendi á að það kemur fram í athugasemdum við frv., um refsinæmi varðandi kaup á kynlífsþjónustu af einstaklingi yngri en 18 ára, að alls staðar á Norðurlöndunum þar sem tekið er á þessum málum er þyngsta refsing tveggja ára fangelsi og allt niður í sex mánuði. Við höfum reynt að hafa samræmingu milli refsiviðurlaga okkar og annarra Norðurlanda, sérstaklega kannski á þessu sviði. Ég vildi láta þetta koma fram. En auðvitað mun hv. allshn. fara yfir málið.