Ráðherraábyrgð

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 17:56:21 (880)

2001-10-30 17:56:21# 127. lþ. 16.13 fundur 15. mál: #A ráðherraábyrgð# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[17:56]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er grundvallaratriði að gera refsiábyrgð ráðherra virka, ekki vegna þess að maður hafi endilega séð fyrir svo mörg brot sem kynnu að valda refsiábyrgðinni í sjálfu sér, heldur er refsiábyrgð ráðherra hugsuð fyrst og síðast sem varnagli ef til þess kemur. Eins og kerfið á Íslandi er núna þá er það algjörlega óvirkt og það er ekki nógu gott, herra forseti.

Eins og ég minntist reyndar á í ræðu minni í málinu sem var á undan á dagskránni þá lagði nefndin sem fjallaði um starfsskilyrði stjórnvalda til að skoðað yrði hvort ekki væri rétt að gera heildarendurskoðun á ráðherraábyrgðarlögunum og voru færð fyrir því ansi sterk rök að mínu mati, þ.e. að nokkur vafi leiki á því að lögin séu nægilega skýr, að hægt sé að nota þau í þeim tilgangi sem til var ætlast. Það verður að segjast eins og er að það er mjög undarlegt að engar af þeim góðu tillögum sem fram koma í skýrslu nefndar um starfsskilyrði stjórnvalda hafi verið lagðar fram af hálfu ríkisstjórnarinnar eftir því sem ég best veit. Það tel ég mjög undarlegt í ljósi þess hversu þar er um mjög góðar tillögur að ræða og umræðan í samfélaginu hefur einmitt verið í þá veruna að ástæða sé til að taka þær ábendingar alvarlega sem þar eru settar fram.

Í sumar hefur eftirlit með meðferð opinbers valds verið óvenjumikið til umræðu í samfélaginu vegna máls fyrrverandi þingmanns, Árna Johnsens, en í því máli kom fram ótvírætt mikil brotalöm á því hvernig eftirlitinu með þessu er háttað í stjórnsýslunni. Í tengslum við það mál sem er enn í rannsókn kom m.a. til umræðu hugsanleg ábyrgð ráðherra. Til skoðunar kom hvort þeir embættismenn sem að málinu komu kynnu að bera einhverja ábyrgð og í raun er ekki útséð um það enn hvert angar þess máls kunna að teygja sig.

Á tímabili beindust sjónir fjölmiðla og annarra sem um málið fjölluðu að hugsanlegri ábyrgð menntmrh. vegna starfa fyrrverandi þingmannsins í byggingarnefnd Þjóðleikhússins og það var eins og sú umræða nánast rynni út í sandinn af hálfu allra sem tóku þátt í henni. En ég tel ástæðu þess hafa fyrst og fremst verið þá hversu óskýrar þessar reglur eru. Það er mjög erfitt, hvort heldur stjórnmálamenn eða fjölmiðlar fjalla um þessi mál, þ.e. um eins alvarlega hluti og ábyrgð ráðherra er og reyndar líka ábyrgð embættismanna, ef lögin og þær reglur og venjur sem um þau mál gilda eru svo óljós sem reyndin er.

Það er líka rétt að ítreka að það sem við erum að fjalla um í sjálfum ráðherraábyrgðarlögunum er í raun refsiábyrgðin. Það er ekki hin pólitíska ábyrgð sem ég reyndar tel líka vera nánast óvirka í íslensku samfélagi. Það er aðeins eitt dæmi um að ráðherra hafi sagt af sér á grundvelli hinnar pólitísku ábyrgðar. Það er líka rétt að ítreka að með slíkri viðurkenningu, þegar ráðherrar viðurkenna, eins og við höfum fjölda dæma um erlendis frá, að þeir telja sig þurfa að sæta eða axla pólitíska ábyrgð, þá eru þeir á engan hátt um leið að segja að þeir hafi gerst sekir um nokkuð sem hugsanlega valdi refsiábyrgð eða broti gegn ráðherraábyrgðarlögum. Þetta eru tveir ólíkir hlutir. En þetta blandast nú samt og ég held að það sé mikilvægt líka að taka umræðuna um hina pólitísku ábyrgð ráðherra upp í tengslum við refsiábyrgðina.

Mörg dæmi þess eru utan úr heimi að ráðherra eða þingmaður sem hefur axlað sína pólitísku ábyrgð og sagt af sér, geri það þrátt fyrir að hann lýsi því jafnframt yfir að hann sé algjörlega ósammála þeim ásökunum sem að honum beinast. Hann getur hins vegar einfaldlega þurft að meta aðra þætti eins og hvort umræða um tiltekið mál skaði trúverðugleika hans sem ráðherra og valdi þannig ákveðnum skaða líka fyrir hlutverk hans sem er gríðarlega mikilvægt í samfélaginu.

[18:00]

Um þetta eru fjöldamörg dæmi. Í mörgum tilvikum hafa þessir sömu þingmenn eða ráðherrar síðan átt fjölskrúðugan feril sem stjórnmálamenn eftir sem áður og leggja það þá í dóm kjósenda sinna hvort þeir eigi erindi sem erfiði inn í stjórnmálin aftur. Dæmi um þetta er t.d. Ritt Bjerregaard sem lét árið 1991 af þingflokksformennsku í þingflokki jafnaðarmanna í Danmörku eftir langa deilu um húsnæðismál hennar sem tengdust eitthvað skattamálum. Henni var einnig vikið frá árið 1978 þegar hún var kennslumálaráðherra í stjórn Ankers Jörgensens vegna ásakana um lúxuslifnað í París. En eftir þetta er Ritt enn virk í stjórnmálum og hefur setið á danska þinginu og síðar á Evrópuþinginu. Hún var síðast ráðherra framkvæmdastjórnar ESB í umhverfismálum og nú í matvælum.

Poul Schlüter, þáverandi forsætisráðherra Danmerkur, sagði af sér árið 1993 eftir að gefin var út skýrsla rannsóknardómara sem taldi ráðherrann hafa veitt þinginu rangar upplýsingar um Tamílamálið svokallaða. Gagnrýni rannsóknardómarans kom þessum þáverandi forsætsiráðherra Íhaldsflokksins, sem hafði setið í tíu ár, fullkomlega á óvart. Hann taldi sig hafa skýrt rétt frá öllum staðreyndum málsins og taldi sig hafa farið rétt að í öllu því máli. En Tamílamálið átti rætur að rekja til ársins 1987 þegar Erik Ninn-Hansen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að meina ættingjum tamílskra flóttamanna að flytjast til landsins. Þessi ákvörðun braut hins vegar í bága við dönsk lög og nýr dómsmálaráðherra hnekkti henni. Schlüter og fleiri stjórnmálamenn voru sakaðir um að hafa reynt að þagga málið niður. Schlüter fól síðan hæstaréttardómaranum Mogens Hornslet að rannsaka málið og það er í þessari skýrslu Hornslets, sem er 6.000 blaðsíðna skýrsla um rannsókn málsins, sem ráðherrann sjálfur er harðlega gagnrýndur ásamt fjölda annarra sem málinu tengdust.

En það sem mér fannst fyrst og fremst athyglisvert í tengslum við Tamílamálið í þeirri skýrslu --- einnig ef maður horfir á það í tengslum við umræðuna sem hefur verið hér heima t.d. í sumar um mál Árna Johnsens og þá erum við að tala um þá sem hugsanlega kunna að bera ábyrgð í svona máli --- er hversu mikla ábyrgð embættismenn bera og ábyrgð embættismanna gagnvart því ef ráðherra gefur þeim fyrirmæli sem þeir telja ekki rétt og ekki standast lög. Það er beinlínis tekið fram, um einn embættismanninn sem var forstöðumaður útlendingaeftirlitsins, að jafnvel þó að ráðherrann hafi gefið út skipun um að ekki ætti að heimila þessum Tamílum að komast til landsins þá hafi honum sem embættismanni borið skylda til að veita þeim leyfi til að koma inn í landið. Með öðrum orðum er ábyrgð háttsettra embættismanna gagnvart hinu pólitíska valdi mjög rík. Það er ætlast til að þeir mótmæli þegar þeir telja ráðherra eða aðra pólitíska fulltrúa vera á villigötum. Þetta þótti mér mjög fróðlegt að skoða í tengslum málið sem upp kom hér í sumar. Ég held að við þurfum að velta þessu fyrir okkur hér í ljósi þess sem ég sagði áðan, þ.e. að Alþingi er æðsta stofnun ríkisins og náttúrlega mjög mikilvægt að við sinnum eftirlitshlutverki okkar og að allir sem til eru kvaddir í því kerfi sem við búum við, hvort sem það eru embættismenn, ráðherrar, þingmenn eða aðrir, sinni ábyrgð sinni og axli hana ef út af er brugðið.

Ég held að við þurfum að vanda okkur aðeins betur við það hér. Við erum að sjá það gerast á hinu háa Alþingi að þingmönnum er t.d. meinað um upplýsingar um svo sjálfsagðan hlut eins og forsendur fjárlaga af hæstv. ráðherra. Nýverið var þingmanni neitað um upplýsingar sem búa að baki fjárlagatillögum tiltekinnar stofnunar. Sami hv. þm. fær hins vegar þær sömu upplýsingar sem almennur borgari í gegnum úrskurðarnefnd um upplýsingamálefni sem honum er neitað um sem þingmanni. Maður veltir því fyrir sér: Er ekki eitthvað pínulítið galið í þessu kerfi sem við þurfum að skoða? Ég held að við þurfum að gæta að því að Alþingi á að hafa þetta eftirlitshlutverk. Þó að það sé vissulega mikilvægt að hinn almenni borgari, fjölmiðlar og aðrir sem upplýsingalögin ná til eigi ákveðinn rétt, þá hefði maður haldið að réttur þingmannsins, sem eftirlitsaðila með framkvæmdarvaldinu, ætti að vera ríkari.