Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 18:13:47 (883)

2001-10-30 18:13:47# 127. lþ. 16.16 fundur 17. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hér er talað fyrir till. til þál. um að spornað verði við uppsögnum eða mismunun í starfi vegna aldurs. Tillagan hljóðar svo orðrétt, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna á hvern hátt unnt er með lagasetningu að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi. Skipuð verði nefnd þar sem fulltrúar samtaka launafólks eigi aðild auk fulltrúa stjórnmálaflokka á þingi og skili nefndin áliti innan eins árs.``

Þáltill. svipaðs efnis hefur tvívegis verið lögð fram á Alþingi án þess að hljóta afgreiðslu. Nú er tillagan endurflutt en á textanum eru gerðar breytingar og þar teknar til greina ýmsar ábendingar sem komið hafa fram við umræðu á fyrri þingum auk þess sem farið hefur verið rækilega í gegnum umsagnir um þáltill. sem hafa borist víða að.

[18:15]

Margt bendir til að það færist í aukana að stjórnendur á vinnustöðum leggi áherslu á það við mannaráðningar að ráða fremur ungt fólk til starfa en eldra fólk, jafnvel þótt síðarnefndi hópurinn búi að lengri starfsreynslu. Sums staðar er jafnvel gengið lengra, eldra fólki sagt upp störfum til að rýma fyrir þeim sem yngri eru.

Jafnhliða þessari þróun hefur verið losað um ráðningarfestu þar sem hún hefur verið hvað traustust, þ.e. hjá opinberum starfsmönnum. Sumar stofnanir og fyrirtæki hafa jafnvel gengið svo langt að taka þá stefnu upp að segja fólki upp störfum þegar það hefur náð tilteknum aldri, langt innan við þau aldursmörk sem lög og samningar kveða á um. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þegar lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var breytt árið 1996 var tekin upp sú nýbreytni að ráða embættismenn aðeins til fimm ára í senn. Þetta á einnig við um heilar starfsstéttir og má þar nefna lögreglumenn, tollverði og fangaverði.

Þetta hefur valdið óöryggi hjá eldra fólki og ekki að ástæðulausu. Mikilvægt er að fram fari endurskoðun á lögum með það fyrir augum að tryggja stöðu einstaklinga þannig að þeir verði ekki látnir gjalda aldurs síns á vinnustað. Þannig yrðu til dæmis mjög veigamikil rök að liggja fyrir fengju þeir launamenn sem starfa samkvæmt framangreindri fimm ára reglu ekki endurráðningu. Mikilvægt er að endurskoðun laganna fari fram í nánu samstarfi við samtök launafólks. Í þessu sambandi má benda á að Samband íslenskra bankamanna og fleiri samtök hafa lýst þungum áhyggjum yfir því misrétti gegn eldra starfsfólki sem viðgengst á vinnustöðum og segja þau að það færist mjög í vöxt að fólk sé látið gjalda aldurs.

Meðal ábendinga sem fram hafa komið má nefna að Mannréttindaskrifstofa Íslands telur ástæðu til að ítreka grundavallarreglu Sameinuðu þjóðanna um eldra fólk sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 1991. Þar kemur m.a. fram að eldra fólk eigi að hafa um það að segja hvenær og á hvern hátt starfslok verða.

Í því sambandi má nefna að í stjórnkerfinu, gott ef ekki á vegum forsrn., starfar nefnd sem kannar sveigjanleg starfslok og hvernig skuli að því staðið. Aðild að þeirri nefnd eiga m.a. fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, bæði atvinnurekenda- og launamannamegin.

Í umsögnum sem Alþingi hafa borist vegna þessa máls sem hér er flutt hafa almennt komið fram mjög jákvæð viðbrögð og er hvatt til þess að málið fái framgang. Á meðal þeirra sem tekið hafa undir efni þingsályktunartillögunnar má nefna Landssamband eldri borgara, Mannréttindaskrifstofu Íslands, BHM, BSRB, þjóðkirkjuna, Eyþing, Öryrkjabandalag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Vissulega hafa einnig komið fram gagnrýnisraddir og varnaðarorð. Þannig segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins, með leyfi forseta:

,,Löggjöf eins og hér er gerð tillaga um skapar hins vegar fleiri vandamál en henni er ætlað að leysa. Hún er eingöngu til þess fallin að skerða snerpu og viðbragðsflýti fyrirtækja og dregur þannig úr samkeppnishæfni þeirra og þá jafnframt atvinnumöguleikum starfsmanna.``

Flutningsmaður telur þetta sjónarmið ekki eiga við rök að styðjast. Þvert á móti hafi komið fram sterkar vísbendingar um að æskudýrkun sem svo hefur verið nefnd geti komið fyrirtækjum í koll og beinlínis orðið til þess að veikja stöðu þeirra.

Þetta eru athyglisverð og umhugsunarverð skilaboð sem koma frá Samtökum atvinnulífsins, að það muni draga úr snerpu og viðbragðsflýti fyrirtækja ef þau ekki ráða ungt fólk til starfa. Ég hef um þetta miklar efasemdir. Til þess að geta tekið mikilvægar og afdrifaríkar ákvarðanir með skjótum hætti þarf fólk að hafa þekkingu og hafa öðlast reynslu og þannig starfsaldur.

Að lokum langar mig til að nefna örfá áhersluatriði sem koma fram í umsögnum sem bárust um þáltill. á síðasta þingi. Í erindi þjóðkirkjunnar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Mikilvægt er að starfsmenn þurfi ekki að vera í óvissu um starf sitt eftir að aldur fer að færast yfir enda er starfsreynsla þessa fólks oftar en ekki með því dýrmætara sem stofnun hefur yfir að ráða.``

BSRB tekur eindregið undir efni tillögunnar og segir hana í samræmi við stefnu samtakanna.

Í álitsgerð Landssambands eldri borgara er eindregið mælt með því að þessi tillaga fái skjóta og jákvæða afgreiðslu á Alþingi. Hér segir m.a. með leyfi forseta:

,,Auk þeirra raka sem fram eru færð í greinargerð með tillögunni fyrir þörf á slíkri lagasetningu má benda á að það er mjög þekkt á vinnumarkaði að vissrar tregðu gæti gagnvart því að eldra fólk fái fyrirgreiðslu til að sækja endurmenntunarnámskeið og því meiri tregðu sem það er eldra.``

Síðan segir: ,,Þjóðfélagslega telur stjórnin að það sé mikilvægt að endurnýja og viðhalda starfsmenntun fólks og þeim mun örar sem fólk verður eldra. Ýmis fleiri rök mætti nefna til sem mæla með því að tillaga þessi fái jákvæða afgreiðslu Alþingis.``

Þarna er vikið að örlítið öðrum þætti en tillagan beinlínis fjallar um, þ.e. fólki sé ekki sagt upp vegna aldurs. Þarna er komið inn á athyglisverða vídd í þessari umræðu vegna þess að fólk getur verið látið gjalda aldurs á annan hátt eins og Samtök eldri borgara benda á, t.d. með því að torvelda eldra fólki eða gera því ekki eins hægt um vik að sækja starfsmenntunarnámskeið og yngra fólki. Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum telur mikilvægt að tryggja að fólki verði ekki mismunað í starfi vegna aldurs. Öryrkjabandalagið mælir með samþykkt þessarar tillögu en bendir um leið á nauðsyn slíkrar vinnuverndar fyrir fatlaða ekkert síður en aldraða.

Bandalag háskólamanna telur tillöguna eiga mikinn rétt á sér og vill lýsa yfir fullum stuðningi við hana og þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð henni til rökstuðnings. Hér segi, með leyfi forseta:

,,Rík þörf er á að tryggja betur með lögum að fólk verði ekki látið gjalda aldurs á vinnumarkaði.``

Kvenréttindafélag Íslands leggur áherslu á að tillagan verði samþykkt, lýsir eindrengum stuðningi við hana og vekur athygli á því að sterkar vísbendingar séu um að slík mismunun á vinnustað vegna aldurs bitni fremur á konum en körlum. Hér segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þetta er mjög alvarleg stefna og gildir það bæði um fólk og fyrirtæki. Það er ekki atvinnulífinu til framdráttar að reynslumiklum starfsmönnum sé sagt upp og ungt og reynslulítið fólk ráðið í staðinn. Sé starfsmanni sagt upp af aldursástæðu einni þá má líta á það sem brot á mannréttindum.

Kvenréttindafélag Íslands telur nauðsynlegt að stjórnvöld láti þetta mál til sín taka. Gera þarf faglega úttekt á því um hve stóran hlut launafólks er hér að ræða, á hvaða aldri þeir eru, kyn þeirra, búsetu og menntun.``

Þetta segir meðal annars í áliti Kvenréttindafélags Íslands.

Mannréttindaskrifstofa Íslands vísar í grundvallarreglu Sameinuðu þjóðanna sem ég vék að í uphafi máls míns.

Að lokum vil ég minnast á umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar er tekið undir hugmyndina að baki tillögunni en í álitsgerðinni er ekki talið að hægt sé að ná markmiðum hennar eingöngu með lagasetningu. Samtök sveitarfélaga á Norðurl. v. taka ekki afstöðu til málsins.

Varðandi þetta atriði, að ekki sé hægt að ná fram markmiðum tillögunnar með lagasetningu einni, þá held ég að það sé rétt. Reyndar held ég að það sé ekki hlaupið að því að tryggja í lögum að fólki sé ekki mismunað vegna aldurs. Það er hægt að styrkja réttarstöðu fólks á margvíslegan hátt, í kjarasamningum og vissulega er einnig hægt að gera það í lögum, t.d. gæti eldra fólk haft lengri uppsagnarfrest en yngra fólk. Það er hægt að tryggja einhvers konar biðlaunaréttindi og annað af því tagi. Hitt er þó að ég held rétt, sem kom fram í umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að breytingunum verður ekki einvörðungu komið á með lögum heldur einnig breyttu hugarfari, því að tryggja jákvæða afstöðu. Ég leyfi mér að auglýsa eftir jákvæðari afstöðu frá Samtökum atvinnulífsins en fram kemur í umsögn samtakanna um þessa þáltill. Þar er vísað í snerpuna og viðbragðsflýtinn. Ég held að sú afstaða sé ekki á rökum reist. Ég held að hún sé byggð á ranghugmynd og misskilningi. Ég hvet til víðtækrar umræðu um þetta í þjóðfélaginu. Ég hef dvalið við þessar umsagnir þar sem ég vildi sýna fram á að nánast allir sem um þáltill. hafa fjallað telja mjög brýnt að hún nái fram að ganga.