Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:36:18 (894)

2001-10-31 13:36:18# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar ræðu sem hér var flutt vil ég að eftirfarandi komi fram:

Rannsókn af því tagi sem þingmaðurinn vill hefja tel ég að eigi að vera á hendi Ríkisendurskoðunar. Þingmönnum var í lófa lagið að leggja fram óskir sínar um að máli færi til Ríkisendurskoðunar. Því var það að mínu mati ekki aðalatriði að leggja þetta fyrir fjárln.

Nefndir eru mjög önnum kafnar, ekki síst fjárln. Hv. þm. gat ekki lagt fram nein rök önnur en þau að hann hefði heyrt um einhverjar ábendingar eða ágiskanir varðandi málið sem hann ber hér fram. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir gat hann ekki lagt fram nein rök önnur en orðasveim eða annað sem hann hafði heyrt og gat því nefndin alls ekki orðið við þessu. Enda væri það til að æra óstöðugan ef fjárln. ætti að bregðast við í hvert skipti og þingmanni kemur til hugar að leggja fram svo vanbúna tillögu. Þá gerði nefndin ekki annað.

Nefndarmenn eru vafalaust þeirrar skoðunar að allar upplýsingar af þessu tagi eigi að vera ljósar. Þess vegna taldi nefndin rétt að framvísa málinu til Ríkisendurskoðunar þannig að þingmanninum væri ekki meinað að halda málarekstri sínum áfram. Meiri hlutinn undirstrikaði hins vegar að hann teldi að málið væri vanbúið til þess að nefndin færi að kanna það að beiðni þingmannsins.