Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:38:27 (895)

2001-10-31 13:38:27# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Þær eru mjög sérkennilegar, tilraunir hv. þm. Gísla S. Einarssonar til að koma höggi á menn um þessar mundir. Ég vil valda hv. þm. miklum vonbrigðum með því að segja honum að ég sem samgrh. hef ekki gefið nein fyrirmæli um að eyða gögnum. Samkvæmt upplýsingum úr DV, væntanlega frá samstarfsmönnum hv. þm., kemur fram að á vegum samgrn. hafi verið flogið fyrir 5 millj. kr. það sem af er kjörtímabilsins. Það er alrangt. Reikningar hafa verið greiddir fyrir 1.912 þús. kr. vegna flugs.

Það er reynt að gera það tortryggilegt að flugvélin flaug í heimabæ minn. Ég fór ásamt starfsmönnum úr Siglingastofnuninni og ráðuneytinu til Akureyrar til að skrifa undir samninga við Slysavarnafélagið Landsbjörgu og lét fljúga með mig til baka til Stykkishólms vegna þess að ég hafði lofað því að taka á móti og ávarpa gesti sem sátu ráðstefnu í Stykkishólmi og mæta til Ólafsvíkur í móttöku, þar sem verið var að frumsýna leikritið Fróðárundrin sem var liður í að reyna að efla ferðaþjónustu á svæðinu.

Ég þurfti að nota flugið til að komast á sem skemmstum tíma vegna þess að ég hafði verið ásamt með iðn.- og viðskrh. í Reykjavík í Laugardalnum að kynna íslenska hestinn og þurfti að komast til Reykjavíkur strax um kvöldið og notaði þess vegna þessa flugvél. Það eru skýrar og klárar reglur af hálfu Flugmálastjórnar um að ráðuneytin fái afnot af vélinni, þannig að það gilda ekki um þessa flugvél neinar reglur sem ráðuneyti samgöngumála hafa sett um að eyða eigi einhverjum gögnum. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Það er á ábyrgð Flugmálastjórnar hvaða upplýsingar eru gefnar um þá sem fljúga með vélinni. Auðvitað eru það ráðuneytin sem ákveða hvenær vélin er nýtt og hverjir fara með vélinni hverju sinni.