Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:40:51 (896)

2001-10-31 13:40:51# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir í upphafi að ég undrast að svo mikil leynd skuli vera yfir notkun þessarar vélar að talað sé um að gögnum um hana sé eytt. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvers vegna, ef ekkert tortryggilegt er á ferðinni, þetta liggi þá bara ekki ljóst fyrir. Er þá nokkuð að fela?

Aðalástæðan fyrir því að ég kem hér upp er hins vegar sú að ég vil lýsa yfir áhyggjum mínum yfir því að trekk í trekk, herra forseti, skuli meiri hlutinn á Alþingi meina hv. þm. stjórnarandstöðunnar að sinna lögbundu hlutverki sínu með því að neita þeim um gögn. Það er eins og meiri hlutinn hafi á langri valdatíð sinni gleymt að þinginu ber að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins og það er háalvarlegt mál ef þeim er ekki gert kleift að sinna þessu hlutverki sínu.

Ég vísa m.a. til þess að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur var nýlega meinaður aðgangur að gögnum vegna fjárlagatillagna lögreglunnar. Hún fékk rétti sínum hins vegar framgengt sem almennur borgari fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamálefni. Er það ekki orðið svolítið skrýtið, herra forseti, ef réttur hins almenna borgara til aðgangs að upplýsingum er orðinn ríkari en réttur þingmanna?

Herra forseti. Ég tel að þarna sé mjög alvarlegt mál á ferðinni. Ég vil nota tækifærið og hvetja hæstv. forseta til þess að taka þetta mál upp í forsn. og kanna hvort hið háa Alþingi þurfi ekki að gera eitthvað í að tryggja að Alþingi geti sinnt hinu lögbundna hlutverki sínu, að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins.

Herra forseti. Ef hið háa Alþingi og forseti Alþingis tekur ekki upp hanskann fyrir þessa stofnun og fyrir hv. þm., svo að þeir geti sinnt eftirlitshlutverki sínu, þá erum við á hálum ís.