Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:42:58 (897)

2001-10-31 13:42:58# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst það orðið afar hvimleitt, alvarlegt og niðurlægjandi fyrir þingið hvernig, aftur og aftur, vetur eftir vetur þarf að ganga eftir því við ráðherra og opinberar stofnanir að þingið fái eðlilegar upplýsingar, m.a. svo að þingmenn geti sinnt störfum sínum, eins og hv. þm. Gísli Einarsson er að gera. Hann vill fá að sinna eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu. Það er auðvitað furðulegt að hann hafi ekki atbeina formanns fjárln. og fjárln. til að sinna hlutverki sínu sem þingmaður.

Hvað gerir hæstv. ráðherra þegar hann er inntur eftir eðlilegum svörum um notkun á vél Flugmálastjórnar? Hann byrjar að afsaka eigin notkun og notkun ráðuneytisins á vélinni. Hér á auðvitað að upplýsa um það sem beðið er um. Sé það ekki gert vaknar auðvitað tortryggni og grunur um að hér sé eitthvað á ferðinni sem ekki þoli dagsins ljós. Það er alveg skýrt í mínum huga, bæði samkvæmt lögum um bókhald og líka lögum um loftferðir, þá á að geyma þessi gögn. Það gengur gegn lögum ef það er brotið og þessum gögnum er fleygt. Ef það er rétt að Flugmálastjórn geymi ekki þessi gögn þá er það grafalvarlegt. Ég skora á hæstv. ráðherra að svara eðlilegum spurningum sem til hans er beint.

Það er auðvitað líka mikilvægt, herra forseti, ég tek undir það með hv. formanni þingflokks Samfylkingarinnar, að forsn. taki þetta mál upp þegar svo er komið að þingmenn þurfa að leita réttar síns gegnum úrskurðarnefnd um upplýsingamál, ekki sem þingmenn heldur sem almennir borgarar, til að geta sinnt hlutverki sínu og farið í gegnum fjárlög með eðlilegum hætti, kannað málin og fjallað um þau út frá nánari upplýsingum og faglegum vinnubrögðum.

Af þessu tilefni hvet ég til þess, herra forseti, að þetta mál verði tekið upp af forsn. þingsins.