Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:49:56 (902)

2001-10-31 13:49:56# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), TIO
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, að hv. þm. Gísli S. Einarsson hefði lagt fram sérstök rök í þessu máli en hér í umræðunni hefur það komið fram að hann lagði engin slík rök fram. Það var beðið um þau rök og þau voru ekki birt. Mér er ekki ljóst hvers vegna þingflokksformaðurinn kýs að fara hér með rangfærslur en svona er nú málið vaxið. Það hefur ekki verið kynnt í þessum umræðum hvernig stendur á því að þingmaðurinn kýs að fara ekki þá leið sem honum er opin. Hann hefur ekki stutt það neinum rökum í þessari umræðu hvers vegna hann kýs að gera það ekki og getur svo heldur ekki lagt fram rökstudda beiðni um það hvers vegna hann vill blanda fjárln. í málið.