Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:50:55 (903)

2001-10-31 13:50:55# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég hygg að starfsreglur þingsins og allir í þessum sal geri einmitt ráð fyrir því eftirlitshlutverki sem þingið hefur, ekki síst fjárln., og hv. þm. hafa vísað til. Við deilum ekki um það. Við deilum hins vegar um það hvernig mál skuli koma til þingnefnda til þess að þær geti unnið það.

Fjárln. telur að öll mál er varða opinbera stjórnsýslu eigi að vera uppi á borðinu og þar skuli sannleikurinn liggja fyrir. Við teljum hins vegar að þingmenn verði að vanda málatilbúnað sinn. Ef þingmaðurinn hefði lagt fram einhverjar þær upplýsingar sem margsinnis var beðið um, einhverjar þær upplýsingar sem gæfu nefndinni farveg og ástæðu til að taka dýrmætan tíma sinn í þetta, hefði hún strax orðið við slíkri beiðni. Ef nefndin hefði slíkar upplýsingar eftir athugun ríkisendurskoðanda hefði hún sömuleiðis orðið við því þannig að menn mega ekki rugla því saman að hér sé nefndin, eða þingið, að reyna að bregðast því að styðja við bakið á upplýsingaskyldu gagnvart þingmönnum.

Fjárln. opnaði einmitt þingmanninum leið til Ríkisendurskoðunar með því að framvísa málinu þangað um leið og meiri hlutinn lét það alveg í ljós að málið væri ekki í þeim búningi hjá nefndinni að nefndin sjálf gæti tekið það. Hins vegar yrði málið fellt í þann farveg sem þingmanninum hefur alltaf staðið opinn, að leita til Ríkisendurskoðunar, og ég verð að taka undir mótmæli gegn því sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sagði þegar hún sagði að þingmaðurinn hefði haft sérstök rök fyrir því. Það voru einmitt þau rök sem okkur vantaði. Hvar eiga beiðnir þingmanna og svör við þeim að enda? Hvenær förum við að rannsaka landtökubáta Landhelgisgæslunnar ef einhverjum dettur í hug að spyrja um það? Hvenær eigum við að svara því hvernig traktorarnir á Hvanneyri hafa verið notaðir utan garðs eða innan?