Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:53:13 (904)

2001-10-31 13:53:13# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég harma þá aðferð sem hæstv. ráðherra og virðulegir stjórnarþingmenn nota í þessari umræðu. Ég harma það. Þann 24. júlí lagði undirritaður fram beiðni um að fjárln. óskaði eftir afriti af loggbók flugmálastjórnarvélar. Þegar málið var tekið til umræðu, 29. október, sagði ég strax að rökin hjá mér væru umfjöllun í dagblöðum sem var ekki hlustað á. Það var ekki hlustað á að það væru nein rök að dagblöðum, fjölmiðlum, væri neitað um upplýsingar sem þau höfðu leitað eftir. Þess vegna benti ég á þá mögulegu leið að vísa málinu til Ríkisendurskoðunar. Það var svo gert með því að meiri hluti hv. fjárln. neitaði að taka málið til umfjöllunar en gerði ekki athugasemd við eða vísaði bara bréfinu beint áfram. Ég þakka auðvitað fyrir þá afgreiðslu. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu en ég lýsi þungum áhyggjum yfir viðbrögðum hæstv. samgrh. sem segir að undirritaður sé að koma höggi á menn.

Virðulegur forseti. Ég óska skýringa á þessum orðum. Ég óska skýringa á þeim orðum hæstv. ráðherra að undirritaður sé að koma höggi á menn.

Mér sýnist, virðulegur forseti, að niðurstaða þessa hljóti að vera sú að hæstv. samgrh. verði að birta skýrslu um þetta efni sem við höfum verið að fjalla um í þessari umræðu um störf þingsins.