Rekstur vélar Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 13:55:07 (905)

2001-10-31 13:55:07# 127. lþ. 17.91 fundur 86#B rekstur vélar Flugmálastjórnar# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna þess sem hér hefur verið rætt er nauðsynlegt að taka skýrt fram að vitanlega eru farþegar sem fara með flugmálastjórnarvélinni skráðir alveg á sama hátt og gert er ráð fyrir í lögum um aðra flutninga með flugi. Reglur segja í dag að auki til um þá sem fara með ferjum. Þeir sem sigla með Herjólfi eru skráðir þannig að það liggur fyrir eftir hverja ferð hverjir hafa verið farþegar.

Sama gildir um millilandaflug eins og hv. þm. þekkja en þessi gögn eru hins vegar ekki geymd. Aðalatriði málsins er hins vegar það að útgjaldatilefnið sem í þessum tilvikum snýr að ráðuneytum er alveg skýrt í bókhaldi ríkisins þannig að ríkisendurskoðandi metur það og gerir væntanlega athugasemdir ef honum sýnist sem tiltekin útgjöld séu utan eðlilegra marka. Þá eru að sjálfsögðu gerðar athugasemdir. Það er því alveg skýrt að ráðuneytin gera glögga grein fyrir tilefni og ástæðum þess að flugvél Flugmálastjórnar er notuð. Það er á þeim vettvangi sem ég tel eðlilegt að fara yfir málið og það gerir Ríkisendurskoðun. Það liggur hins vegar alveg fyrir að samgrh. hefur ekki gefið nein fyrirmæli, svo ég svari hv. þm. Gísla S. Einarssyni, um að eyða gögnum. Það liggur allt uppi á borðinu og í þessu tilviki er það á valdi Flugmálastjórnar hvernig þessi gögn eru geymd.