Kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:03:05 (907)

2001-10-31 14:03:05# 127. lþ. 18.1 fundur 147. mál: #A kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Biðlistar í heilbrigðisþjónustu hér á landi eru staðreynd og eru merki um ákveðna veikleika í þjónustunni. Samkvæmt samantekt landlæknis frá liðnu vori bendir margt til þess að biðlistar séu að lengjast og biðtími eftir aðgerðum einnig. Fólk þarf að bíða í rúmlega eitt og hálft ár eftir aðgerð á almennum skurðdeildum á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og biðtími eftir bæklunaraðgerð er um eitt ár.

Biðtími eftir aðgerð getur reynst sjúklingi afdrifaríkur. Aðgerðin sem hann bíður eftir getur staðið í vegi fyrir fullri virkni hans í samfélaginu og getur skert lífsgæði hans verulega. Biðtíminn er kostnaðarsamur fyrir einstaklinginn jafnt sem þjóðfélagið í heild.

12. júlí sl. felldi Evrópudómstóllinn dóm er varðar viðurkenningu á rétti sjúklinga til að leita sér heilbrigðisþjónustu í löndum Evrópusambandsins ef sambærileg þjónusta býðst ekki í heimalandi viðkomandi tímanlega. Dómurinn varðar mál tveggja hollenskra einstaklinga sem fengu ekki heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu en leituðu eftir henni í öðru landi Evrópusambandsins.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu átt rétt á endurgreiðslu frá tryggingakerfi heimalands síns. Í dómsorði sínu viðurkenndi Evrópudómstóllinn rétt sjúklinga sem eru á biðlista eftir aðgerð í heimalandi sínu, á að fá meðferð í öðru landi Evrópusambandsins og skyldi hún greidd af sjúkratryggingu viðkomandi í heimalandi hans. Að því tilskildu að meðferðin sé vísindalega viðurkennd og falli undir sjúkratryggingu sjúklings er heilbrigðisyfirvöldum óheimilt að synja viðkomandi um greiðslu vegna læknismeðferðar í öðru landi Evrópu nema í þeim tilvikum sem heilbrigðiskerfi landsins getur boðið sömu eða sambærilegra þjónustu án óhóflegrar biðar. Réttindi og skyldur velferðarkerfa í Evrópu eru ekki samræmd og ákvarðar hvert aðildarríki hvernig það hagar málum sínum í þeim efnum. Hins vegar mega ríkin ekki brjóta á grundvallarréttindum þegnanna, sem tryggð eru með Evrópusáttmálanum, til að leita sér þjónustu nema rökstuddar og málefnalegar ástæður liggi þar að baki.

Áhrif þessa dóms er þegar farið að gæta. Miklar umræður hafa orðið í Bretlandi um þetta mál enda eru biðlistar í heilbrigðisþjónustu þar langir og biðtími eftir þjónustu eftir því. Í byrjun október fjölluðu bresk blöð um fyrsta breska sjúklinginn sem fór gagngert til Þýskalands í kjölfar dómsins til að fá liðskiptaaðgerð á hné en hann hafði beðið í tvö ár og átti enn eftir að bíða í um tíu mánuði til viðbótar eftir aðgerð í Bretlandi. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef eru bresk yfirvöld nú að gera áætlun um að senda hópa Breta til meginlandsins til aðgerða til að grynnka á biðlistum. Af þessu tilefni varpa ég fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbrrh.- og trmrh.:

Telur ráðherra að niðurstaða Evrópudómstólsins 12. júlí sl., um að sjúklingar eigi rétt á að fá greiddan kostnað við heilbrigðisþjónustu, sem ekki er unnt að veita á tímabæran hátt í heimalandinu en framkvæmd er í öðru aðildarríki Evrópubandalagsins, hafi fordæmisgildi á Evrópska efnahagssvæðinu og gildi því fyrir Íslendinga jafnt sem aðra þegna á svæðinu?