Markaðssetning lyfjafyrirtækja

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:23:49 (916)

2001-10-31 14:23:49# 127. lþ. 18.2 fundur 149. mál: #A markaðssetning lyfjafyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Ásta Möller:

Herra forseti. Heilbrigðisstarfsmenn hafa skyldur til að halda við menntun sinni og kynna sér nýjungar í starfi sínu, t.d. verkun nýrra lyfja, sjúklingum sínum til hagsbóta. Lyfjakynningar eru því eðlilegur þáttur í heilbrigðisþjónustu og það er óþarfi að setja þær í annað samhengi.

Mér er kunnugt um að Samtök lyfjafyrirtækja og Samtök lækna hafa nýverið sett sér siðareglur um samskipti sín sem m.a. snúa að lyfjakynningu. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Lyfjafyrirtækjum er óheimilt að gefa læknum gjafir til þess að hvetja til ávísana eða notkunar lyfja. Verðlitlar gjafir sem einkum er ætlað að minna á vöruheiti eða notkunarmáta lyfja er þó heimilt að afhenda læknum.``

Hæstv. heilbrrh. nefndi hér áðan ákveðið nýlegt tilvik sem varðaði rauðvín. Þar var ætlunin að tengja rauðvín við höfuðverk sem við kannski þekkjum sum. Þessi rauðvínsflaska mundi sjálfsagt teljast vera verðlítil gjöf í þessu sambandi og falla innan ramma siðareglnanna. Hér á landi er hins vegar engin hefð að nota áfengi í þessum tilgangi þótt það væri e.t.v. eðlilegt í Frakklandi þannig að þetta tilvik mætti kannski flokkast undir yfirsjón.