Áfallahjálp

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:32:58 (920)

2001-10-31 14:32:58# 127. lþ. 18.3 fundur 166. mál: #A áfallahjálp# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Áður en ég svara fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, vil ég gera grein fyrir skilgreiningu þeirri á áfallahjálp sem Landlæknisembættið styðst við:

Áfallahjálp er sérhæfð þjónusta sem byggir á þekkingu á bráðum áfallastreituviðbrögðum og beinist að því að draga úr alvarlegum sálrænum eftirköstum áfalla. Þjónustan er afmörkuð, tímabundin og með áherslu á forvarnir og mat á þörf fyrir frekari eftirfylgd. Í áfallahjálp er orðið áfall notað yfir hættu sem ógnar lífi eða limum sem og reynslu þeirra sem verða vitni að ofbeldi, líkamsáverkum eða dauða.

Fyrsta spurning: ,,Hvernig er heildarskipulagningu áfallahjálpar háttað hjá heilbrigðisyfirvöldum?``

Á Landspítalanum í Fossvogi er reglubundinni þjónustu við þá sem þurfa áfallahjálp sinnt af neyðarmóttöku vegna nauðgana og miðstöðvar áfallahjálpar sem hefur verið starfrækt frá árinu 1995. Neyðarmóttakan sinnir áfallahjálp þeirra sem til hennar leita. Miðstöð áfallahjálpar sinnir fyrst og fremst einstaklingum sem leita til slysa- og bráðamóttökunnar, en einnig beiðnum frá öðrum deildum spítalans og leiðsögn við þá sem í starfi sínu sinna þolendum áfalla á landsbyggðinni. Öðrum tilvísunum er sinnt eftir því sem tök eru á.

Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og nokkrum heilsugæslustöðvum á landinu eru starfandi áfallahjálparteymi sem sinna sams konar þjónustu.

Við Landspítalann í Fossvogi hefur einnig verið skipað áfallahjálparteymi sem er einungis virkjað ef um er að ræða hópslys, hópslysaæfingar og þegar Almannavarnir ríkisins eru virkjaðar. Þegar hópslys eða válegir atburðir gerast og stjórnstöð Almannavarna er virkjuð hefur verkstöð landlæknisembættisins yfirumsjón með heilbrigðismálum, þar með talinni áfallahjálp. Rauði kross Íslands hefur sinnt sálrænni skyndihjálp í hópslysum og einnig áfallahjálp, einkum barna og unglinga, í samstarfi við heilbrigðisþjónustuna.

Önnur spurning: ,,Hvaða úrræði í áfallahjálp eru til og hvernig er þeim beitt?``

Áfallahjálp er mjög fjölþætt og felur í raun í sér alla þá hjálp sem þolendur áfalla þurfa á að halda. Helstu úrræði áfallahjálpar eru:

Sálræn skyndihjálp sem er andleg og líkamleg aðhlynning við þolendur áfalla. Langflestir borgarar geta sinnt þessu.

Viðrun eru stuttir skipulagðir fundir þar sem þolendur og hjálparaðilar vinna úr sterkum tilfinningum og upplifun sem tengjast reynslu og störfum. Til þess að geta sinnt þessum þætti þarf vanan stjórnanda.

Úrvinnsla áfalls, sem er tilfinningaleg úrvinnsla einstaklinga eða hópa. Þetta er gert undir stjórn fagaðila.

Virkjun stuðningskerfis þolenda áfalla, sem er fjölskylda, vinir, prestar, heilsugæsla og aðrir.

Mat á áhættuþáttum og eftirfylgd undir umsjá fagaðila.

Fræðsla og upplýsingar, annars vegar til þeirra sem verða fyrir áfalli beint eða óbeint, hins vegar til almennings og fagfólks þannig að það sé betur í stakk búið til að veita hjálp.

Þriðja spurning: ,,Hvernig er eftirfylgd við fórnarlömb áfalla háttað?``

Þegar válegur atburður hefur gerst og áfallahjálp hefur verið veitt er þörfin fyrir eftirfylgd veitt af áfallahjálparteyminu í samráði við starfsfólk Rauða krossins sem komið hefur að áfallahjálpinni.

Mikil áhersla er lögð á að skrá niður upplýsingar um alla þá sem fengið hafa áfallahjálp og þeim upplýsingum er komið til heilsugæslulækna viðkomandi einstaklinga. Þeir sem taldir eru þurfa frekari aðstoð er vísað annaðhvort til heilsugæslulæknis eða annars sérfróðs aðila.

Verkstöð landlæknisembættisins í stjórnstöð Almannavarna metur í samráði við áfallahjálparteymi á neyðarstað hvort og hve lengi þörf er fyrir áfallahjálp eftir að atburður hefur átt sér stað.

Fjórða spurning: ,,Hversu miklum fjármunum er varið til starfa við áfallahjálp árlega á vegum ráðuneytisins?``

Eins og fram kemur í svari við fyrstu spurningunni hér að framan er skipuleg dagleg þjónusta fyrir þá sem þurfa á áfallahjálp að halda veitt af tveimur einingum Landspítalans -- háskólasjúkrahúss, þ.e. neyðarmóttöku vegna nauðgana og miðstöð áfallahjálpar. Samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þessara eininga í ár verði um 23 millj. kr. Auk þess veita fjölmargir starfsmenn sjúkrahússins áfallahjálp daglega, þó óbeint sé, sérstaklega starfsmenn gjörgæslu og geðdeildar, prestar, sálfræðingar og félagsráðgjafar, svo einhverjir séu nefndir. Kostnaður vegna þessarar óbeinu áfallahjálpar, ef svo má að orði komast, er ekki metin til fjár.

Fimmta spurning: ,,Hver eru framtíðaráform heilbrigðisyfirvalda hvað áfallahjálp varðar?``

Mikilvægast er að koma upp áfallahjálparteymum á nægilega mörgum stöðum á landinu til að tryggja að allir landsmenn hafi aðgang að slíkri þjónustu. Nauðsynlegt er að efla fræðslu um áfallahjálp í námi hinna ýmsu faghópa sem sinna áfallahjálp og einnig þeirra sem í störfum sínum mæta þolendum áfalla, svo sem lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitarfólki.

Almannavarnir ríkisins, landlæknisembættið og Landspítalinn í Fossvogi þurfa að vinna áfram að virku skipulagi sem tryggir að áfallahjálp sé veitt á neyðartímum og að nauðsynlegri eftirfylgd við fórnarlömb sé sinnt.

Ég ætla að geyma mér framhaldið þangað til í síðara innleggi mínu.