Háspennulínur í jörð

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:54:17 (926)

2001-10-31 14:54:17# 127. lþ. 18.4 fundur 154. mál: #A háspennulínur í jörð# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir þessa fyrirspurn.

Mig grunar reyndar að okkar menn í orkugeiranum fylgist mjög náið með þessum málum og framþróun varðandi möguleika á lagningu jarðkapla. Ég tel að þróunin sé komin það langt núna, eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra, að við eigum alvarlega að athuga að marka okkur þá stefnu nú þegar að fara í lagningu jarðkapla í nágrenni og við þéttbýlisstaði. Í mörgum tilfellum er miklu lægri spenna á þeim strengjum.

Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra er um sambærilegan kostnað um að ræða og víða fer það mjög í taugarnar á fólki þegar slíkar háspennulínur eru lagðar í gegnum t.d. útivistarsvæði. Ég held að í stöðunni eins og hún er í dag þá ættum við að hefjast handa í nágrenni við þéttbýlið í stórum og smáum bæjum.