Háspennulínur í jörð

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:55:26 (927)

2001-10-31 14:55:26# 127. lþ. 18.4 fundur 154. mál: #A háspennulínur í jörð# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Þekkt er að áherslan er meiri á að flytja raforku með jarðstrengjum í þéttbýlli löndum og ráðherrann tók Bretland sem dæmi í máli sínu.

Hins vegar tel ég að sjónræn mengun í fallegu landslagi megi heldur ekki líðast í framtíðinni. Því tel ég víst að krafa um jarðstrengi fari vaxandi. Verði svo að næsta eða þarnæsta umhverfistilskipun frá Evrópusambandinu leggi þær skyldur á íslensk stjórnvöld að innleiða í lög umhverfisvænni flutning raforku gæti þurft að leggja núverandi línur upp á nýtt.

Eðlilegra væri að gera slíkar kröfur nú þegar þar sem því má við koma í stað þess að raða upp fleiri risum. Það er stjórnvalda að gera slíkar kröfur og jafnvel ýtrustu kröfur. Ég skora á hæstv. ráðherra að takast á við þetta verkefni. Stjórnvöld setja leikreglur og geta sett verkefnum ýmsar skorður. Einnig er vitað að tækninýjungar ganga hraðar ef nauðsyn ber til og að neyðin kennir naktri konu að spinna.

Mér segir svo hugur að fljótlega verði umhverfisvænni leiðir ódýrari, ekki bara við 33 kílóvatta og 66 kílóvatta línur, heldur einnig fyrir þær sem flytja hærri spennu. Líklegt er að umhverfisvænni leiðir verði ódýrari og það er hægt að tryggja með því að umhverfisspjöll verði dýrkeypt, alla vega dýrkeyptari en nú er. Því gæti verið tímabært að gera kröfur um umhverfisvænni leiðir.

Það er í þágu umhverfisverndar að virkjunarmannvirki, þar með taldar háspennulínur, verði ekki áberandi í landslagi, jafnt í byggð sem í óbyggðum. Því er mikilvægt að slík stefna sé mörkuð sem fyrst til að draga úr líkum á því að enn meira þurfi til að kosta síðar til að leiðrétta mistök.