Lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:18:08 (935)

2001-10-31 15:18:08# 127. lþ. 18.94 fundur 92#B lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Það er að mínu áliti mikilvægt að bera saman staðreyndir úr lífi fólks hér á landi frá einum tíma til annars. Allt of oft snýst umræðan um að heimur versnandi fari og slík viðhorf hafa verið við lýði kynslóðum saman. Auðvitað er eðlilegt að fullorðið fólk beri nútímaunglinga saman við eigin fortíð og dragi ályktanir sem ekki endilega standast.

Í þeirri rannsókn sem hér er til umræðu, ungt fólk í framhaldsskólum á Íslandi, er verið að kanna hvernig vímuefnaneysla ungmenna hefur breyst milli áranna 1992 og 2000. Að rannsókninni stóðu sérfræðingar hjá Rannsókn og greiningu, en bakhjarlar voru ýmsir opinberir aðilar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna m.a. að dregið hefur úr ölvun meðal 16--19 ára unglinga í framhaldsskólum á Íslandi árið 2000, samanborið við árið 1992. Til að mynda hafði rúmlega 81% framhaldsskólanema orðið ölvað síðastliðna 30 daga árið 1992, 81% miðað við tæplega 63% árið 2000. Þessu ber að fagna. Algengast er reyndar að þessir unglingar neyti áfengis heima hjá öðrum og minnir það á þá stefnu sem foreldrasamtök, t.d. Heimili og skóli, hafa beitt sér fyrir en það er að standa gegn foreldralausum partíum.

Nokkur umræða hefur orðið um svör við spurningu um svefntöflur og róandi lyf. Níu af hverjum tíu framhaldsskólanemum hafa aldrei tekið slík lyf en túlka mætti svörin þannig að 10% hafi gert það og geri það að staðaldri. En þegar grannt er skoðað er talan ekki slík, heldur eru það rúm 95% af þessum unglingahóp sem enga eða svo til enga reynslu hefur af svefnlyfjum eða róandi lyfjum.

Mikil umræða á sér stað í öðrum löndum um vímuefnanotkun ungs fólks, t.d. í Bretlandi þar sem Cherie Blair hefur tekið þátt í herferð góðgerðarsamtaka gegn slíkri neyslu. En þar kemur fram að einn drengur af hverjum tíu undir 16 ára aldri noti ólögleg vímuefni að staðaldri.

Foreldrarnir eru auðvitað lykill að framtíð og hamingju barna sinna. Það verður fróðlegt að sjá hverju fram vindur á næstu árum í þessum málaflokki. Vonandi verður með könnunum af þessu tagi og góðra manna ráðum hægt að snúa þróuninni til enn betri vegar.