Lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:20:41 (936)

2001-10-31 15:20:41# 127. lþ. 18.94 fundur 92#B lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu afar mikilvægt mál sem varðar okkur öll og framtíð ungmenna landsins. Við þurfum alltaf að vera meðvituð um að þegar raunveruleg hætta steðjar að verðum við að geta brugðist rétt við.

Það ánægjulega við þá könnun sem hér er gerð að umtalsefni er að áfengisneysla framhaldsskólanema hefur minnkað og við þurfum að halda því til haga. Einnig hefur orðið greinileg hugarfarsbreyting hjá foreldrum varðandi áfengisneyslu ungs fólks. Rannsóknir hafa sýnt að meiri samvera foreldra og ungmenna dregur verulega úr líkum á að unglingar neyti vímuefna. Það hefur greinilega skipt mjög miklu máli hversu mikil áhersla hefur verið lögð á samstarf við foreldra vegna þessara mála. Ég efast ekki um að það hafi skilað sér í minnkaðri áfengisneyslu. Við þurfum að hafa þetta líka í huga.

En við sjáum hins vegar ákveðin hættumerki, því miður, og það eru nýjar neysluvenjur. Hér er verið að ræða um aukna notkun á róandi lyfjum og ólöglegum vímuefnum. Það þarf að skoða miklu nánar hvers vegna ungt fólk notar róandi lyf. Það hefur oft viljað brenna við og er vitað að undir miklu álagi, svo sem í prófum, er notkunin fyrir það fyrsta örvandi lyf sem notuð eru til að geta komist yfir námsefnið og að prófahrinu lokinni þarf róandi lyf til að ná sér niður og komast í eðlilegt horf. Þetta er að sjálfsögðu stórhættulegur vítahringur og talið er að rekja megi dauðsföll ungmenna af þessum sökum.

Það þarf að skoða orsakir neyslunnar. Er það kvíði, streita eða álag? Hvenær og á hvaða tímabilum er slíkra lyfja neytt? Er það samkvæmt læknisráði eða er bara nóg af pillum í húsinu eða á götunni?

Hér væri um verðugt framhaldsrannsóknarverkefni að ræða fyrir áfengis- og vímuvarnaráð og landlækni.

Þegar þessi könnun er skoðuð kemst maður ekki hjá því að velta fyrir sér spurningunni: Hvað með ungmenni sem ekki eru í framhaldsskólum? Skoða þarf hagi þess hóps og hvernig neysluvenjur hann hefur. Hversu stór er hann og hvernig eru hlutföll milli kynja? Ég treysti jafnframt áfengis- og vímuvarnaráði, landlækni og hæstv. heilbrrh. til að gera gangskör að því að skoða þann hóp nánar.