Lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:30:00 (940)

2001-10-31 15:30:00# 127. lþ. 18.94 fundur 92#B lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum# (umræður utan dagskrár), KVM
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér eru til umræðu niðurstöður rannsóknar sem gerð var á vímuefnaneyslu framhaldsskólanema. Það sem vekur helst athygli mína er að unglingar virðast neyta róandi lyfja í auknum mæli og að þeim reynist auðvelt að nálgast slík lyf. Þessi rannsókn nær reyndar aðeins til þeirra sem eru í framhaldsskólum og þess vegna má spyrja hvort ekki sé eðlilegt að slíkar kannanir séu viðameiri og upplýsi betur hver raunveruleg staða árganganna er?

Reikna má með því að vímuefnaneysla sé í sumum tilvikum ástæða brotthvarfs unglinga frá námi. Af þeim sökum má leiða líkur að því að sá hópur sem ekki stundar framhaldsskólanám neyti áfengis og annarra fíkniefna í meira mæli en þeir sem eru í framhaldsskóla.

Eins og fram hefur komið virðist unglingum auðvelt að verða sér úti um róandi lyf eftir ólöglegum leiðum. En hversu stór er sá hópur unglinga sem neytir þessara lyfja eftir hinni löglegu leið og hversu stór er þá neysluhópurinn í heild sinni?

Vaxandi notkun róandi lyfja og ýmiss konar geðlyfja meðal barna og unglinga hlýtur að vekja þær spurningar á hvaða braut við erum og hvort ekki séu til aðrar lausnir í fjölda tilvika á vanlíðan og óyndi barna en miklar lyfjagjafir. Eru foreldrar að bregðast skyldum sínum? Eru skólarnir að bregðast skyldum sínum? Er samfélagið komið á svo mikla fljúgandi ferð að við gleymum grundvallarskyldunni að vera meira með börnum okkar og veita þeim góðan aga og hlýju?

Þær spurningar vakna hvers vegna lyfjanotkun ungmenna fer svo vaxandi sem raun ber vitni. Er hluti skýringarinnar fólginn í því að heilbrigðiskerfið bregst rangt við með allt of miklum lyfjagjöfum þegar um hegðunarraskanir barna er að ræða? Getum við ekki komið með önnur og betri úrræði, t.d. markvissari stuðning og ráðgjöf við foreldra og einnig þau ungmenni sem búa við vansæld og andlega erfiðleika?