Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:48:15 (945)

2001-10-31 15:48:15# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Nútímabyggðastefna á að stuðla að því að byggðin í landinu geti þróast með ólíkum hætti og á sínum eigin forsendum. Það er fráleitt að halda áfram gömlu pakkauppboðunum og horfa fram hjá hinum mismunandi aðstæðum og þörfum fólksins í landinu hvort sem það er í Kópavogi eða á Kópaskeri. Þess vegna er gott að greina og gera um það skýrslu.

En stjórnvöld geta ekki endalaust látið við það eitt sitja að skrifa áætlanir og gera skýrslur. Aðrar þjóðir hafa gert sér grein fyrir því að það þarf líka að framkvæma. Það er ömurlegur veruleiki fjölda fólks víða um landið að ævisparnaður þess falinn í húseign hefur orðið að engu á meðan ríkisstjórn Davíðs Oddssonar flýr frá yfirlýsingum sínum og fyrirheitum. Við jafnaðarmenn viljum að alls staðar hafi fólk tækifæri til menntunar, njóti velferðar og þeir þættir hvíli á traustri efnahagsstjórn. Liður í því að þetta gangi upp er aðgangur að góðum samgöngum, líka upplýsingahraðbraut nútímans. Á það höfum við lagt áherslu. En þar hafa svik ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar verið stærst. Þeir lofuðu að nýjar lausnir í upplýsingatækni yrðu nýttar til að skapa störf í hátæknigreinum án tillits til búsetu.

Víðast um landið, jafnvel á stóru þéttbýlisstöðunum sem horft er til sem kjarnastaða, getur fólk ekki enn tekið þátt í upplýsingatæknisamfélaginu á jafnréttisgrundvelli og enn vantar 27 km upp á ljósleiðarann til Raufarhafnar. Á nokkrum undanförnum árum, á sama tíma, herra forseti, og fyrirheit hafa verið uppi um að fjölga störfum hins opinbera úti á landi hafa t.d. störfin verið að tínast af Ríkisútvarpinu á Akureyri úr 12 fyrir nokkrum árum í sex og það síðasta fauk núna um daginn.

Herra forseti. Fólkið hefur fengið nóg af skýrslum. Það vill aðgerðir og að staðið sé við fyrirheit.