Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:53:03 (947)

2001-10-31 15:53:03# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:53]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Allar byggðir þurfa atvinnuundirstöðu, þess vegna urðu þær til. Atvinnan veitir landsbyggðarfólki þá öryggistilfinningu að byggðin og fólkið hafi kjölfestu sem tryggi þeirra framtíð. Við höfum séð að viðbrögð urðu hörð í mörgum byggðum á síðasta sumri þar sem slátrun á búfé og úrvinnsla afurða var veigamikill þáttur í atvinnumöguleikum fólks. Víða tókst að bjarga málum og tryggja slátrun þó enn sé framtíðin óviss í þeim efnum.

Í sjávarbyggðum er nú enn á ný óvissan og óöryggið hlutskipti fólks sem þar býr. Í stefnu ríkisstjórnar er kvótakerfið, sem engum árangri hefur skilað við uppbyggingu botnfiskstofna, keyrt yfir fólkið. Fólkið skal með valdboði nauðugt taka trúna á samþjöppun valds og veiðiheimilda. Gamla vistarbandið er nú nær okkur á ný í framtíð fámennisvalds auðvaldsgreifa, það er hin virka byggðastefna stjórnvalda. Kvótakerfi yfir alla smábáta er skemmdarverk gegn landsbyggðinni. Vistarbandsmáltækið sem varð svo ríkt með Íslendingum áður fyrr ,,svo má illu venjast að gott þyki`` kemst e.t.v. aftur í tísku. Þjóðin á að hafna stjórnvöldum sem gera slík máltæki virk á nýjan leik.

Það er hins vegar alveg sama hvað er sett á blað og hversu margar skýrslur og greiningar eru unnar á Byggðastofnun eða annars staðar. Hæstv. sjútvrh. deilir að sjálfsögðu áhyggjum með sumum landsbyggðarþingmönnum vegna fækkunar fólks á landsbyggðinni, m.a. eftir ferð um Norðausturland, en að sjálfsögðu tók hann fram að fólksflóttinn væri ekki vegna kvótakerfisins. Í umfjöllun um veika stöðu sjávarbyggða hefur margoft verið bent á að sjávarbyggðirnar hafa verið að veikjast á undanförnum árum og mest sé fækkun fólks á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Ýmsar álögur ríkisins eru þyngri á landsbyggðarfólki en íbúum á suðvesturhorninu, t.d. þungaskattur, virðisaukaskattur, námskostnaður, ferðakostnaður o.fl. Þetta mætti bæta að nokkru með lækkun annarra skatta eða gjalda t.d. tekjuskatti. Aðrar þjóðir beita lægri álögum í sköttum eða annarri gjaldtöku til þess að efla landsbyggðina. Það mætti einnig gera á Íslandi.