Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:57:38 (949)

2001-10-31 15:57:38# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í framhaldi af skýrslu Stefáns Ólafssonar sem unnin var fyrir Byggðastofnun 1997 var samin stefna um byggðastefnu sem unnið hefur verið eftir síðan þá. Þar var gerð sæmilega fræðileg greining á því hverjar orsakirnar væru og reynt að koma fram með heilsteyptar tillögur um leiðir til úrbóta. Sú vinna sem farið hefur fram síðan er framhald af þeirri vinnu sem þá var unnin og fyrir liggur að það sem mestu máli skiptir að beina kröftum sínum að er á sviði atvinnumála og á sviði lífskjara.

Lífskjarajöfnun skiptir miklu máli og eins og fram hefur komið í ræðu hæstv. ráðherra og 1. þm. Vestf. hefur margt vel áunnist í jöfnun lífskjara. Besta leiðin til að ná árangri í að láta þann þátt vinna með einstökum landsvæðum er að leggja áherslu á að efla byggðakjarna sem er mjög til umræðu um þessar mundir. Nýjasta skýrslan sem fram hefur komið leiðir í ljós að þeir byggðakjarnar á landsbyggðinni sem best standa um þessar mundir njóta góðs af nálægðinni við höfuðborgarsvæðið sem er sönnun þess að sterkt svæði eins og höfuðborgarsvæðið hefur jákvæð áhrif í kringum sig eins og þarna er dregið fram, til Akraness, Reykjanesbæjar og Selfoss. Því eigum við að styrkja fleiri byggðakjarna á landsbyggðinni til þess að byggðarlög í kringum þá kjarna eflist eins og dæmi eru um á suðvesturhorni landsins, og dregið er fram að Ísafjörður, Akureyri og Egilsstaðir á Austurlandi eða svæðin þar um kring séu vænlegustu staðirnir til þess að hafa sem mest jákvæð áhrif á sem flesta íbúa landsbyggðarinnar.

Í atvinnumálum ber að leggja mikla áherslu á fjármagn til atvinnuuppbyggingar með áhættufjármagni. Ljóst er að gera þarf betur í þeim efnum en hingað til hefur verið og verja meira fé til áhættufjárfestinga í atvinnulífi á landsbyggðinni.