Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 16:02:13 (951)

2001-10-31 16:02:13# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), SI
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Virðulegi forseti. Engum dylst að sú öra búsetuþróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum er engum til heilla og er vandi landsins í heild en ekki bara einstakra byggðarlaga. Að mörgu leyti ættum við að vera betur í stakk búin nú á tímum örrar tækniþróunar til að takast á við þennan vanda en fyrir nokkrum árum, t.d. áður en fjarskipta- og upplýsingatæknin hélt innreið sína í samfélagið.

Byggðaáætlunin hefur komið ýmsu jákvæðu til skila en þrátt fyrir fögur fyrirheit verður að viðurkennast að flutningur opinberra starfa til landsbyggðarinnar hefur engan veginn gengið eftir og í raun er háð varnarbarátta um stóran hluta þeirra opinberu starfa sem nú eru á landsbyggðinni. Einhæfni í atvinnulífinu er aðeins ein ástæða þess að fólk flytur á brott frá hinum dreifðu byggðum landsins. Fjölbreytni og sveigjanleiki í menningu og afþreyingu sem og hinir ýmsu félagslegu þættir skipta einnig miklu máli varðandi búsetuval fólks.

Ýmsir hafa freistast til að kenna fiskveiðistjórnarkerfinu um hvernig komið er en það held ég að sé afskaplega mikil einföldun og alls ekki ráðandi skýring. Vissulega hefur mælst fylgni milli þess er kvóti fer úr byggðarlagi og fólksfækkunar. En að sama skapi hefur þetta ekki virkað í hina áttina, þ.e. að með auknum fiskveiðiheimildum í byggðarlagi þá fjölgi íbúum.

Til að hægja á, stöðva eða snúa við búsetuþróuninni þarf margt að koma til. M.a. þarf að efla nýsköpun í atvinnulífinu, fjarvinnslu ýmiss konar sem og að halda gefin loforð um flutning opinberra starfa til landsbyggðarinnar. Sjá þarf til þess að landsbyggðarfólk sitji við sama borð og aðrir varðandi opinbera þjónustu og halda áfram á sömu braut með bættar samgöngur. Huga þarf að jöfnun flutningskostnaðar með svipuðum hætti og á sér stað með jöfnun raforkukostnaðar og kostnaðar vegna símaþjónustu. Ekki þarf síst að koma til breytt hugarfar hjá landanum, að haldið sé á lofti því jákvæða, öllum þeim fjölmörgu góðu kostum sem fylgja því að búa úti á landi, í stað þess að einu fréttirnar sem berist utan af landi séu tengdar neikvæðni, erfiðleikum og bölmóði.