Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 10:39:17 (958)

2001-11-01 10:39:17# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[10:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stjórnvöld hafa lagt fram talsvert fjármagn á síðustu árum til að styrkja frjáls félagasamtök. Nú viljum við gera enn betur og nota hluta af því fjármagni sem sparast með því að leggja niður Náttúruverndarráð til að styrkja frjáls félagasamtök og það verður gert aðallega á grunni samkomulags sem við gerðum við þessi félagasamtök fyrir stuttu. Þau félagasamtök sem undirrituðu það samkomulag eru Félag um verndun hálendis, Fuglaverndarfélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Landvernd, Náttúruverndarfélag Suðvesturlands, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Vesturlands, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Sól í Hvalfirði, Umhverfisverndarsamtök Íslands og Samtök útivistarfélaga. Þetta samkomulag er opið fyrir fleiri félögum sem vilja koma að samkomulaginu síðar. Við munum því freista þess að úthluta til slíkra samtaka hluta af þessum 8 millj. Ekki er búið að ákveða nákvæmlega hvað það verður há upphæð, það verður rætt í fjárlagagerðinni. Við munum leitast við að úthluta því fjármagni eftir ákveðnum reglum. Það þarf auðvitað alltaf að hafa eitthvert svigrúm samt og m.a. kemur fram í þessu samkomulagi að við munum reyna að styrkja frjálsu félagasamtökin til að koma inn í meiri vinnu varðandi þessi stærri frv. sem munu lúta að náttúruvernd í framtíðinni.