Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 10:42:24 (960)

2001-11-01 10:42:24# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[10:42]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum reynt að vinna eftir ákveðnum reglum í umhvrn. varðandi það að úthluta styrkjum á grundvelli liðarins 1.23 Ýmis umhverfisverkefni, á fjárlögum yfirstandandi árs. Til að nefna það sem dæmi, þá fá stærri samtök rekstrarstyrk sem er þrefalt meiri en minni samtök. Síðan eru ákveðnar skilgreiningar á því sem menn hafa reynt að fara eftir í ráðuneytinu. Það er því úthlutað á grunni félagastarfseminnar en ekki hipsumhaps eins og mér fannst þingmaðurinn gefa í skyn áðan í andsvari sínu.

Hins vegar er það einnig þannig að samtökin koma til okkar með mjög spennandi verkefni og þar höfum við ákveðna pólitíska sýn að sjálfsögðu á hvað okkur þykir mikilvægt að styrkja og hvað ekki. Við höfum því svigrúm til að styrkja góð verkefni sem við teljum vera framsýn sem umhverfissamtökin koma með til okkar en sleppum því að styrkja verkefni sem við teljum (ÁSJ: Góða konan.) að séu ekkert sérstaklega framsýn og skili litlu. Bæði er það mat umhverfissamtakanna sem koma með umsóknir til okkar, í hvaða verkefni þau vilja fara en svo er það að sjálfsögðu mat okkar sem eru lýðræðislega kjörin og höfum tekið þá ábyrgð á okkar hendur stýra málaflokkum hér í landinu að velja og hafna verkefnum. Það er því einnig pólitískt mat sem felst í því.