Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 10:44:22 (961)

2001-11-01 10:44:22# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[10:44]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Hér hefur hæstv. umhvrh. lagt fram tvö lagafrumvörp og mælt fyrir þeim saman. Í sjálfu sér hef ég ekki miklar athugasemdir við það sem fram kemur til að byrja með í frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999. Hins vegar er ýmislegt í þessu máli sem þarfnast þó nokkurrar umræðu sem mun vonandi fara fram í hv. umhvn. og síðan við 2. umr. um frv.

[10:45]

Ég hef í sjálfu sér engar athugasemdir við þær hugtakaskilgreiningar sem verið er að leggja til að breyta og bæta. Hins vegar er lagt til að leggja niður Náttúruverndarráð, og það hefur svo sem legið í loftinu um nokkurn tíma, og síðan gefin fyrirheit um stuðning við frjáls félagasamtök er láta sig umhverfismál varða hér á landi á grundvelli samstarfsyfirlýsingar frá 20. mars sl.

Það kom fram í svari hæstv. umhvrh. áðan að nokkuð matskennt er hvernig sá stuðningur hefur farið fram og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson minnti á rimmu sem við áttum hér um sl. jól vegna fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár. Það skiptir mjög miklu máli að reglur séu skýrar og öllum kunnar um hvernig hið opinbera hyggist standa að stuðningi við frjáls félagasamtök, að reglurnar séu öllum skýrar, að þar sé hins fyllsta jafnræðis gætt og að upphæðirnar sem hér hafa verið nefndar --- hæstv. ráðherra nefndi 8 millj. kr. en gat þó ekki alveg gefið skýrt svar um hvort þær mundu allar fara til frjálsra félagasamtaka --- um hvaða upphæðir er verið að ræða. Því auðvitað skiptir það mjög miklu máli fyrir hin frjálsu félagasamtök sem hafa eins og við vitum úr frekar litlu fé að spila og miklu minna fé en ýmsar ríkisstofnanir sem vinna á þessu sviði.

Ég held því að mjög brýnt sé að umhvn. fari vel yfir þetta mál, fái skýr svör frá ráðuneytinu og frá stjórnarmeirihlutanum um hvað menn hyggist fyrir.

Ég vil einnig benda á að dreift hefur verið á hinu háa Alþingi svari við fyrirspurn hv. þm. Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur um Árósasamninginn, sem er auðvitað mjög mikilvægur samningur, sem á að tryggja ákveðna lýðræðislega umræðu um umhverfismál í samfélaginu. Nokkrir meinbugir eru á því að fullgilda samninginn og í þá vinnu þarf að fara, að skoða það betur og gera nauðsynlegar lagabreytingar eins og kemur fram í svari hæstv. utanrrh. til hv. þm. Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur. Þetta þarf allt að skoðast í samhengi.

Ég vil því brýna hv. þm. stjórnar og stjórnarandstöðu sem sitja í umhvn. að leggja heilann í bleyti og vinna að þessu máli þannig að faglegt og traust samstarf stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka sé tryggt, jafnræðis sé gætt og tryggt sé að frjáls félagasamtök sem láta sig náttúruvernd og umhverfisvernd varða hér á landi sitji í raun og veru við sama borð.