Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 10:48:58 (962)

2001-11-01 10:48:58# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[10:48]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. hefur kynnt hér tvö frv. sem í raun hafa það að meginmarkmiði að leggja niður Náttúruverndarráð.

Vissulega hefur margt breyst hvað varðar starfsemi frjálsra félagasamtaka og vitund almennings hefur aukist og vaxið hvað varðar náttúruvernd og að íbúar landsins þurfi að standa vaktina. Mörg félög og samtök hafa eflst og þátttaka þeirra og afskipti af umhverfismálum hafa aukist. Það tel ég ekki síst vera vegna nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum þar sem hreinlega er hvatt til þess að almenningur og félagasamtök láti skoðanir sínar í ljósi og komi fram með athugasemdir og það hefur örugglega vakið vitund manna og gert mönnum ljóst að það bera allir ábyrgð þegar náttúruvernd og umhverfismál eru annars vegar.

Með tilliti til þessa væri hægt í fljótu bragði að segja að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu eðlilegar. En af reynslu síðasta þings, afgreiðslu síðustu fjárlaga, þá tek ég undir orð hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur að mjög skýrar og ákveðnar reglur verða að vera um hvernig félög eigi aðgang að mótun reglna og fái að hafa áhrif á gang mála þegar umhverfis- og náttúruverndarmál eru rædd. Og eins hvað varðar stuðning við frjáls félagasamtök, hver á rétt til að fá opinberan stuðning og hvaða verkefni ber að styðja.

Auðvitað eru margt af þessu pólitískar ákvarðanir og sérstaklega þegar kemur til þess að ákveða í hvaða verkefni á að fara. Félagasamtök sem eru ekki endilega stór en hafa mjög ákveðnar skoðanir á hugsanlega afmörkuðum málum eiga líka rétt. Það eiga allar raddir rétt á að koma fram og þær raddir þurfa líka stuðning.

Ef af því verður að Náttúruverndarráð verði lagt niður, þá þurfa leikreglurnar að vera mjög skýrar. Gæta þarf jafnræðis, herra forseti, þegar kemur að stuðningi við frjáls félagasamtök.

Þess vegna mundi ég leggja til að við færum ekki út í þessar breytingar fyrr en við værum búin að undirrita Árósasamninginn og fullgilda hann. Með honum værum við búin að undirgangast ákveðin skilyrði sem eru ítarlegri en það samkomulag og samstarfsyfirlýsing sem gerð var 20. mars sl.

Ég hvet hv. umhvn. að skoða þetta mál frá öllum hliðum og með það að leiðarljósi að við stöndum eftir með öflugri þátttöku frjálsra félagasamtaka að allri stefnumótun okkar hvað varðar umhverfis- og náttúruvernd.