Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:08:45 (968)

2001-11-01 11:08:45# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:08]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki líkt hv. þm. sem hér talaði áðan að fara í kringum það sem hann meinar eins köttur kringum heitan graut. En ég held að full ástæða sé til þess að hann útskýri nánar hvað hann átti við með orðum sínum þegar hann talaði um að Náttúruverndarráð séu öfgafull samtök að ýmsu leyti. Ég óska hreinlega eftir því að hv. þm. geri grein fyrir einhverjum af þeim málum sem hann hlýtur að líta til þegar hann kemst að þessari niðurstöðu og leyfi þingheimi að heyra í hvaða málum þessi samtök hafa gengið fram af þessari brún. Það var nú mitt aðalerindi í ræðustólinn.

Til viðbótar langar mig að spyrja hv. þm. hvort hann hafi engar áhyggjur af því fyrirkomulagi sem hæstv. ráðherra var að lýsa hér áðan, að í ráðuneytinu eigi, með pólitísku tilliti, að velja verðuga og óverðuga til þess að vera á háa og lága styrknum, eins og hv. ráðherra lýsti áðan. Kann ekki að vera að þeir sem hafa kannski öfgafullar skoðanir að mati þeirra sem þar ráða ríkjum verði þá haldið til hlés og að mönnum verði svolítið stjórnað með því hvað þeir fái mikinn aur til að starfa að þessum málum og að þannig verði haft áhrif á þá? Ég spyr hv. þm.: Er það svo? Hefur hann engar áhyggjur af þessu? Eða hvað gæti komið í veg fyrir það?

Ég tel að það sé mjög varasamt sem hæstv. ráðherra var að lýsa hér áðan. Ég held að menn þurfi að fara mjög vandlega yfir það hvort ekki sé hægt að hafa annað fyrirkomulag á því hvernig menn eru valdir til þess, eða samtök, að fá styrki frá hinu opinbera