Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:29:57 (976)

2001-11-01 11:29:57# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri það að hv. þm. telur að þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á Austurlandi séu ekki góðar.

Ég hef séð það í störfum margra þeirra samtaka sem barist hafa gegn framkvæmdum á Austurlandi að þar er ekki setið við orðin tóm eða mótmæli af hálfu Íslendinga einna. Þeir hafa einnig sótt yfir hafið til samtaka, jafnvel mjög öfgafullra, erlendis til að ljá málstaðnum hérna heima lið. Þar að auki hafa verið gerðar út sendinefndir á vegum frjálsra félagasamtaka til Noregs og hingað og þangað til að koma í veg fyrir framkvæmdir sem stóðu til á Íslandi.

[11:30]

Ég er ekki viss um að samtök úti í heimi geri sér nokkra grein fyrir því hvað íslenskum hagsmunum er fyrir bestu. (Gripið fram í.) Og erlendir fjárfestar, það er ekki nokkur spurning að erlendir fjárfestar kynna sér fyrst og fremst það sem snýr að því fyrirtæki sem þeir eru að reisa hér. Þeir eru ekki að velta öðru fyrir sér. Ef einhver virkjun hefur t.d. verið samþykkt og fer í gegnum umhverfismat er hún ásættanleg fyrir þá fjárfesta, eðlilega. Þessi sjónarmið hafa hins vegar ekki gilt fyrir þau öfgasamtök sem hafa gengið hvað lengst gegn öllum virkjunum á Íslandi. Það er um það sem við erum að ræða.

Herra forseti. Þegar við veltum þessu máli fyrir okkur held ég að mjög nauðsynlegt sé að reyna að ná utan um málið, styrkja frjáls félagasamtök, en jafnframt að þau samtök sem stjórnvöld ráðfæri sig við séu rekin á faglegum grunni.