Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:32:10 (977)

2001-11-01 11:32:10# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:32]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki bara ég sem greinilega verð fyrir útúrsnúningum hér af hálfu hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Ég talaði ekkert um góðar framkvæmdir eða á móti einstökum framkvæmdum. Ég var bara að tala um málið almennt, (Gripið fram í.) þá sýn. Og ég talaði aldrei um Eyjabakka eða Kárahnjúkavirkjun.

Mér fannst mjög óheppilegur samanburður hjá hv. þm. að tala um að náttúruverndarmenn sæktu sér liðsauka til útlanda. Ég veit ekki betur en að hér séu a.m.k. einu sinni til tvisvar á ári í allmörg ár stórir aðilar með mikla peninga á bak við sig sem hallast í hina áttina þannig að ég er nú ansi hræddur um að ef það dæmi yrði gert upp, hv. þm. Kristján Pálsson, yrðu peningar og mannafli náttúruverndarsinna smáir og fáir í þessu máli, þ.e. í samanburði við undirbúning þeirra sem stórar framkvæmdir vilja. Þannig er nú málið.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég held að öll þessi mál þurfi að ræða í nefndinni og skoða frá þeim sjónvinklum sem ég hef hér haldið frammi. Við þurfum á öllum sjónarmiðum að halda, það er alveg klárt í mínum huga. Ef verkefni eru yfir höfuð ekki það góð að þau standist gagnrýni eru þau einfaldlega ekki góð, þ.e. ef það er unnið á demókratískan hátt. Þannig er þetta í öllum málum. Fáum við ekki hagfræðinga til þess að gagnrýna hluti sem við erum með uppi á borðum? Stundum gefa þeir vonda umsögn og stundum góða. Stundum fara menn í framkvæmdir þó að hagfræðingarnir gefi slæmar umsagnir í búntum, og það er neikvætt. Við skulum því ekki bara tala um náttúruverndarsinna í þessu sambandi. Það eru hagsmunaaðilar í öllu samfélaginu sem gefa umsagnir og mynda sér skoðun.