Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:48:43 (982)

2001-11-01 11:48:43# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:48]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Viðbragðapólitík, það er nýtt orð. Ef læknar slá í hné á manni þá lyftist fóturinn. Viðbragðapólitík.

Ég skil ekki hvað fyrir hv. þm. vakir. Eins og ég skil frv. þá er verið að gera tvennt. Annars vegar er verið að skapa breiðari og betri grundvöll fyrir umræðu um náttúruvernd, sjálfbæra þróun og umhverfismál en verið hefur. Í öðru lagi er verið að nýta opinbera fjármuni betur og koma til móts við frjáls félagasamtök í landinu. Það er þetta sem verið er að gera.

Eins og herra forseti skildi var hv. þm. mjög þakklátur mér fyrir að ég skyldi vekja athygli á þessu. Ég skil það þá svo að hv. þm. sé mér sammála um að þetta séu holl og góð markmið og geti þess vegna eins og ég stutt frv.