Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:50:06 (983)

2001-11-01 11:50:06# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:50]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka skýr orð hv. þm. Halldórs Blöndal þegar hann lýsir hér yfir því að verið sé að bregðast við harðri gagnrýni á Náttúruverndarráð. Sú gagnrýni hlýtur að öllu leyti að koma frá þeim sem hafa talið að Náttúruverndarráð hafi staðið fast á meiningu sinni og staðið vaktina um náttúruvernd.

Þessi skýring kom ekki svona ljóst fram hjá hæstv. umhvrh. þegar hún gerði grein fyrir frv. Það mátti með góðum vilja skilja rökstuðning hennar svo að þetta væri vegna ýmissa breytinga sem hefðu orðið í þjóðfélaginu, að lög um mat á umhverfisáhrifum hefði hleypt fleirum að, fleiri væru orðnir meðvitaðir, það ætti að víkka náttúruverndarþing yfir í umhverfisverndarþing og koma fleirum að. Allt var þetta þá svona undir einhverju rósrauðu sjali án þess að það kæmi bara skýrt fram að í Náttúruverndarráði væri of harður kjarni sem stæði vaktina of fast.

Ég er sannfærð um það, herra forseti, að ekki er hægt að flokka fólk eftir því hversu miklir náttúruverndarsinnar það er eða hversu mikið það ber hag náttúrunnar fyrir brjósti. Við gerum það örugglega öll hvert með sínum hætti. En við höfum mismunandi skyldur.

Verkefnin hafa breyst frá því að Eysteinn Jónsson var uppi, sá mikli náttúruverndarsinni. Verkefnin sem við ráðumst í, virkjanirnar, eru miklu stærri. Aðgerðirnar eru miklu róttækari. Stóriðjan er stöðugt að stækka. Það er ekkert óeðlilegt að með betri vitund og meiri árvekni og miðað við þær framkvæmdir sem á að fara í séu raddir náttúruverndarsinna háværari.