Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:52:20 (984)

2001-11-01 11:52:20# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:52]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þá eru raddir náttúruverndarsinna háværari --- ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þm. Þuríður Backman, 5. þm. Austurl., á við með þeim orðum á þessum stað í ræðunni.

Húsgullsmenn á Húsavík, eru þeir ekki náttúruverndarsinnar? Eru ekki skoðanir þeirra á því hvernig eigi að vernda náttúruna jafngildar og annarra, þeirra sem hafa lagt ómælda vinnu og ómældan tíma til náttúruverndaraðgerða, til að bæta umhverfið og vakið athygli á mörgu sem miður fer í samskiptum manns og náttúru?

Er ég að upplýsa eitthvað nýtt fyrir hv. þm. og hv. 12. þm. Reykn. þegar ég segi að Húsgullsmenn hafi ekki verið ánægðir yfir því að þess væri krafist að umhverfismat færi fram þegar þeir höfðu beitt sér fyrir því að rækta upp Hólasand, þá svörtu auðn? Eða er verið að reyna að búa til einhverja grýlu úr því að ég skuli leyfa mér að segja að ekki séu allir alsáttir við störf Náttúruverndarráðs eins og þau hafa verið? Hvað vakir fyrir þessum hv. þm.? Hafa þeir virkilega verið í þeim eigin heimi að halda að ég sé eini maðurinn sem ekki er ánægður með stefnu og yfirbragð Náttúruverndarráðs?

Hvað hafa menn utan af landi sagt, bara venjulegt fólk, náttúruverndarfólk sem hefur komið á náttúruverndarþing, hv. 5. þm. Austurl.? Hvað hafa menn sagt fyrir norðan um það í hinu nýja stóra kjördæmi? Hafa þeir verið ánægðir? Ég hef ekki orðið var við það. Mér finnst bara sjálfsagt að koma til móts við þessa gagnrýni og fagna því.