Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:34:36 (1001)

2001-11-01 12:34:36# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:34]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í lokin. Þetta hefur verið mjög áhugaverð umræða og þá sérstaklega eftir að hafa hlustað á hæstv. umhvrh. flytja mál sitt og skýringar sínar á tilurð þeirra frv. sem hér liggja frammi og síðan að hlusta á fulltrúa Sjálfstfl. skýra frá hugmyndum sínum um tilurð þessa frv. Það er nokkuð breitt bil þarna á milli.

Það verð ég að segja að þó að sýnin geti verið skýr hjá báðum flokkunum, þá eru forsendurnar mjög ólíkar. Mér þykja forsendur framsóknarmanna í þessu máli miklu geðslegri en forsendur þeirra hv. þm. Sjálfstfl. sem hér hafa talað. En auðvitað geta báðar forsendurnar legið hér að baki. Það er bara grafalvarlegt mál ef verið er að leggja niður ráð og stofnanir vegna þess eins að fram kemur gagnrýni eða leiðbeiningar til hæstv. ríkisstjórnar sem henni hugnast ekki, passa ekki, þá séu viðkomandi ráð eða stofnanir lagðar niður.

Ég ætla að vona að þegar málið verður skoðað í hv. umhvn. þá verði það haft að meginmarkmiði að styrkja frjáls félagasamtök og efla lýðræðið og að skoðanir frjálsra félagasamtaka eigi greiðan aðgang að stjórnsýslunni. Ég vil mótmæla því að Náttúruverndarráð verði lagt niður á þeirri forsendu að það sé öfgasamtök. Það er það ekki að mínu mati.

Ef Náttúruverndarráð hefur uppfyllt þau skilyrði og unnið samkvæmt þeim lögum sem það byggir á, þá er það gott. Við höfum auðvitað mismunandi skoðanir á því hversu hörð afstaða Náttúruverndarráðs hefur verið í einstaka málum. En að mínu mati hefur það eingöngu verið að vinna sitt starf.

Ég vil því hvetja til þess að allt þetta mál verði skoðað vel og einnig með tilliti til þeirra mismunandi sjónarmiða sem hér hafa komið fram. Auðvitað er það rétt að hver og einn þingmaður, eins og hver og einn Íslendingur, ber náttúruvernd fyrir brjósti. Við höfum þessa kennd, bara mismunandi sterka. En eitt er víst að flokkarnir gera náttúruvernd misjafnlega hátt undir höfði í markmiðum sínum. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er flokkur sem hefur sett náttúruvernd og umhverfisvernd mjög ofarlega í stefnuskrá sinni og hún er í raun og veru einn af þremur stólpum hreyfingar okkar og það er eðlilegt að við beitum okkur hér í þingsölum alveg sérstaklega þegar mál sem snúa að náttúruvernd koma inn á okkar borð.