Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:41:18 (1003)

2001-11-01 12:41:18# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:41]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Þetta er rétt hjá hv. þm. Ég nefndi hvorugan á nafn, hvorki hv. þm. Halldór Blöndal né hv. þm. Kristján Pálsson, en það var hv. þm. Kristján Pálsson sem sagði Náttúruverndarráð vera öfgafull samtök að ýmsu leyti. Það gerði hv. þm. Halldór Blöndal aftur á móti ekki. En hann sagði að brugðist væri við harðri gagnrýni á Náttúruverndarráð. Og þessi harða gagnrýni er, ef ég tók rétt eftir, vegna þess að Náttúruverndarráð hafi ekki sýnt sáttarþel.

En, herra forseti, það þarf þá að vera sáttarþel hjá báðum aðilum. Það er ekki nóg að sáttarþelið sé eingöngu hjá öðrum aðilanum.

Ég gaf þar af leiðandi framsögu og útlistunum hæstv. umhvrh. og framsóknarmanna þau ummæli að mér þættu þau geðslegri en þeirra sjálfstæðismanna sem hér hefðu talað, því mér fannst að í máli framsóknarmanna kæmu þau rök fram að þessar breytingar væru til þess að efla frjáls félög náttúruverndarsamtaka. Þegar öllu er á botninn hvolft, hvernig sem við lítum á þetta, þá heyri ég það nú hjá öllum að það á að vera markmið breytinganna og vonandi verður því takmarki náð, þ.e. að við eflum frjáls félagasamtök á náttúruverndarsviði.