Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:02:34 (1016)

2001-11-01 14:02:34# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um leigubifreiðar og þó að ég, ólíkt síðasta ræðumanni, eigi ekki sæti í samgn. Alþingis vil ég samt fjalla um þetta frv. nokkrum orðum, ekki síst sem þingmaður Reykvíkinga. Eins og fram hefur komið eru að sjálfsögðu flestir leyfishafar leigubifreiða í Reykjavík.

Grundvöllur þessa frv. er að flytja umfjöllun um leyfisveitingar og annað sem lýtur að leigubifreiðum frá samgrn. til Vegagerðarinnar og það finnst mér mjög jákvætt. Það er ekki eðlilegt að ráðuneyti þurfi að vera með daglega afgreiðslu mála af þessu tagi og mjög eðlilegt að því sé ekki miðstýrt á þann hátt sem verið hefur. Og ég fagna því að þetta skuli verða gert.

Ég er hins vegar, eins og sumir ræðumenn hér, frekar hlynnt því að sveitarfélög taki þennan kaleik enn þá lengra. Ég tel að ekki sé óeðlilegt að skoða það alvarlega að þau sveitarfélög sem vilja og geta taki að sér þennan málaflokk enda eru sveitarfélögin og sveitarstjórnirnar þeir aðilar sem eru næstir almenningi á sínu svæði. Í 2. gr. frv. kemur einmitt fram heimild til ráðherra að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að fela einstökum sveitarstjórnum framkvæmd mála er varða leigubifreiðar innan sveitarfélagsins og ég vil hvetja til þess að í hv. samgn. verði sérstaklega fjallað um þetta og athugað hvaða sveitarfélög það væru sem mundu geta og vilja sinna þessum málaflokki.

Þar sem flestir leyfishafar eru í Reykjavík er auðvitað eðlilegt að það séu bækistöðvar Vegagerðarinnar í Reykjavík sem sjá um afgreiðslu þessara leyfa og ég efast ekki um að það verði skoðað líka í samgn.

Akstur leigubifreiða hlýtur að teljast til almenningssamgangna. Þetta er þjónusta við almenning og þess vegna er auðvitað sjálfsagt að vissar skorður séu settar, eða gæðastaðlar, um það hvernig þessi þjónusta er veitt. Í 5. gr. frv. er farið allítarlega í það. Þar er gert ráð fyrir að sá sem fullnægi skilyrðunum sem þar eru talin upp geti fengið atvinnuleyfi en skilyrðin eru að viðkomandi hafi fullnægjandi starfshæfni, sé skráður eigandi fólksbifreiðar, stundi leiguakstur að aðalatvinnu, hafi óflekkað mannorð, sé fjár síns ráðandi og sé 70 ára eða yngri og svo eru að vísu undanþágur og nánari skýringar í þessum greinum.

Mig langar aðeins að taka fyrir 4. liðinn sem er að hafa óflekkað mannorð. Vegna öryggis farþeganna skiptir það auðvitað máli að leigubílstjóri hafi óflekkað mannorð. Það er alveg nauðsynlegt að tryggja öryggi farþeganna og ég fagna því að það sé sett enn þá skýrar fram í 5. gr.

Í 3. gr. kemur hins vegar fram að Vegagerðinni sé heimilt að setja í reglur gæðastaðla um þjónustu leigubifreiðastjóra, stærð og búnað bifreiða o.fl. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt. Í rauninni gæti framtíðarsýnin verið sú að gæðastaðlar um þjónustuna séu settir og síðan sé meira frelsi um útfærslu og framkvæmd ýmissa atriða þarna í kringum. Það þarf ekki endilega að vera Vegagerðin og ekki einu sinni sveitarstjórnin heldur getur bifreiðastjórafélögunum til viðbótar við stöðvarnar sjálfar verið falin framkvæmd ýmissa þátta. En ég held að gæðastaðlar séu lykilatriði. Ég mundi vilja sjá enn þá skýrar kveðið á um þá í þessu frv. og geri ráð fyrir því að samgn. skoði þetta sérstaklega.

Leigubílstjórar eru stétt sem sinnir að mörgu leyti erfiðu starfi. Það er mikið álag í þessu starfi, það er vaktavinna, oft mikill akstur, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, óreglulegur svefn og vissar hættur. Það er alls konar fólk á ferð sem farþegar. Það þarf ekki bara að vernda farþegana fyrir fólki með flekkað mannorð --- leigubílstjórinn getur þurft að flytja farþega sem er með flekkað mannorð. Hættan er fyrir hendi fyrir leigubílstjórann líka.

Leigubílstjórar eru sjálfstæðir atvinnurekendur og eru með eigin bíla. Ég hef hnotið um viss atriði sem kannski ættu ekki að vera inni í reglum eða lögum um þessa stétt, t.d. vil ég nefna 11. gr. frv. Í skýringum við hana er sagt:

,,Þá er gert ráð fyrir að allt daglegt eftirlit með atvinnuleyfishöfum og forfallabílstjórum sé í höndum lögreglunnar.``

Mín viðbrögð þegar ég las þetta voru þau að lögreglan hefði áreiðanlega í nægu að snúast þó að hún bætti ekki á sig daglegu eftirliti umfram það sem henni er ætlað í öðrum lögum og reglugerðum (Gripið fram í: Tala nú ekki um þegar ...) þannig að ég tel að það gefi augaleið að lögreglan hafi eðlilegt eftirlit með atvinnubílstjórum og forfallabílstjórum eins og með öðrum og það þurfi ekki sérstaklega að taka það fram í athugasemdum við frv. að svo sé.

Þá vil ég líka nefna, af því að hér var talað um persónuvernd, að í reglum sem leigubílstjórar starfa nú eftir er leyfishafa gert skylt þegar hann telur sig ekki geta eða getur ekki nýtt sér akstursleyfi sitt og þarf að fá forfallabílstjóra --- þá þarf að fylgja vissum reglum og það er eðlilegt að svo sé en þar á meðal er gerð krafa til leyfishafans sjálfs sem um einhverra vikna eða daga skeið getur ekki ekið bíl sínum --- að gefa Vegagerðinni upp dvalarstað sinn á meðan á þessu stendur. Mér finnst, herra forseti, mjög óeðlilegt að krefjast --- segjum t.d. að leigubílstjóri fái krabbamein eða veikist og sé á sjúkrahúsi, á það þá að fara inn í gagnabanka Vegagerðarinnar að hann sé á krabbameinsdeild Landspítalans eða hvar hann er niður kominn? Mér finnst það vera mjög vafasamt og mér finnst það skerða persónufrelsi manna að ætlast til að þeir standi skil á slíkum upplýsingum um dvalarstað sinn. Það liggur fyrir hvert lögheimilið er og krafa er gerð um símanúmer og hitt og þetta þannig að hægt sé að ná í viðkomandi en mér finnst a.m.k. mjög óeðlilegt að sú krafa sé gerð til leigubílstjóra að hann gefi upp dvalarstað sinn meðan á þessu stendur.

Sú þjónusta við almenning, almenningssamgöngurnar sem leigubílstjórar veita, er mjög mikilvæg í okkar þjóðfélagi. Þeir veita mjög góða þjónustu, ég hef oft nýtt mér hana og veit þess vegna ýmislegt um hana. Ég fagna því sem sagt, eins og ég sagði í upphafi, að miðstýringunni sé aflétt að þessu leyti og vildi sjá það ganga enn þá lengra, að sveitarfélögin og félög leigubifreiðastjóra öxluðu meiri ábyrgð á framkvæmd laganna og ég er fullviss um að hv. samgn. tekur þessar athugasemdir til greina.