Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:27:47 (1020)

2001-11-01 14:27:47# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Ég held að við séum ekki að karpa, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og ég, en það er gott að skýra þetta mál og ég veit í rauninni ekki hvort Reykjavíkurborg hefur yfirleitt nokkurn áhuga á að blanda sér í þetta. En hafi hún það finnst mér það mjög áhugavert og sömuleiðis með smærri sveitarfélög annars staðar á landinu.

Hvað varðar verkefni bifreiðastjórafélaganna --- ég sagði áðan að ég hefði vissar áhyggjur af því að yrðu verkefni tekin af félögunum stæðu þau eftir verkefnalítil, og maður þarf líka að velta fyrir sér þeirri vinnu sem bifreiðastjórafélögin hafa lagt í marga þætti hvað varðar leigubifreiðar, og kostað þess vegna þá vinnu. Við það að þau eru flutt annað fellur til kostnaður á skattborgarann. Maður þarf líka að velta því fyrir sér frá þeim sjónarhóli.

Mér finnst aðalatriðið samt vera að lögin séu skýr og réttlát, um þau sé sátt og síðan séu sett gæðamarkmið og gæðakröfur sem hægt er að framfylgja hvar á landi sem er, hver sem sér um það eftirlit.