Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:58:37 (1028)

2001-11-01 14:58:37# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka spurningu mína, af því að hæstv. ráðherra hafði ekki tíma í fyrra andsvari til þess að svara, um hvort til greina komi að gjaldið falli út á þeim stöðum sem eru með 10 þúsund íbúa eða færri. Ég vildi gjarnan heyra álit hans á því.

Hins vegar er það alveg rétt sem hér kom fram í svari hæstv. ráðherra um þann kostnað sem þarna er um að ræða, eins og hann orðaði það sjálfur, tilheyrandi kostnað í upphafi við að búa til gagnagrunninn. Sérstakur kostnaður mun sannarlega falla til við það. En hann verður þá væntanlega ekki varanlegur þannig að gjaldið er kannski of hátt miðað við það sem þarna kemur fram.

Svo aðeins í lokin, herra forseti, um þá hlutfallstölu sem menn hafa verið að tala um í 2. tölul. 5. gr., um 35% eignarhlutinn. Það er auðvitað alveg hárrétt að þetta snýst um hagkvæmni, og bæði peningastofnun viðkomandi leigubílstjóra og leigubílstjórinn sjálfur mun náttúrlega vega og meta þetta þannig að viðkomandi akstur sé arðsamur. Hins vegar er veröldin svo margbreytileg að það getur verið hagkvæmt fyrir leigubílstjóra í dag að vera með bíla á meiri kaupleigu eða rekstrarleigu en hefur verið áður. Þetta þurftum við e.t.v. ekki að ræða fyrir nokkrum árum.

Ég minni líka á að í því vaxtaokri sem leigubílstjórar sem og aðrir Íslendingar búa við í dag er ekki fýsilegt að vera með mikið af skuldum á bílum sínum eða í rekstrarleigu eða kaupleigu miðað við það vaxtarstig sem okkur Íslendingum er skammtað í dag og ég mundi ekki vilja óska neinum leigubílstjóra þess. Guð forði öllum frá því.

Ég vildi bara rétt í lokin ítreka þessa spurningu með sveitarfélögin, 10 þúsund íbúar eða færri.