Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 15:02:14 (1030)

2001-11-01 15:02:14# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um póstþjónustu sem er 168. mál á þskj. 169.

Núgildandi lög um póstþjónustu eru að stofni til frá því í desember 1996, lög nr. 142/1996, en lögin tóku gildi 1. janúar 1997. Breytingar voru gerðar á þeim með lögum nr. 72/1998, vegna ákvæða í tilskipun ESB, þ.e. tilskipunar 97/67/EB um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu Evrópusambandsins og aukin gæði póstþjónustunnar, er varðar einkarétt til póstmeðferðar en þessi tilskipun var samþykkt af ráðherraráði ESB eftir að Alþingi samþykkti lögin í desember 1996. Ég mun síðar í ræðu minni gera grein fyrir þróun þessara mála í Evrópu.

Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá því að fyrstu póstlögin voru sett hér á landi. Í kafla 3 í athugasemdum við frv. er af þessu tilefni rakinn aðdragandi að setningu þessara laga og stiklað á stóru í þróun póstmála hér á landi á síðustu öld. Jafnframt því að vísa til þess kafla vil ég nefna nokkur atriði sem telja má merkisviðburði í sögu póstmála hér á landi.

Póstþjónusta af hálfu hins opinbera hefst á Íslandi með útgáfu tilskipunar Kristjáns konungs sjöunda um póststofnun á Íslandi 13. maí 1776. Hin eiginlega póstþjónusta á Íslandi er því rúmlega tveggja alda gömul og er því sú opinbera þjónusta sem landsmenn hafa notið einna lengst hér á landi. Opinberum póststofnunum var komið á fót víðast hvar í Evrópu á 16. og 17. öld, í Danmörku svo dæmi sé nefnt 1624, í Svíþjóð 1636 og í Noregi 1647, svo farið sé út í smá sagnfræði hér.

Til gamans má geta þess að samkvæmt tilskipuninni frá árinu 1776 skyldi póstur ganga þrisvar á ári úr hverjum landsfjórðungi til Bessastaða í tengslum við póstskip milli Íslands og Danmerkur. Skýrt var tekið fram að póstferðunum væri fyrst og fremst komið á fót til þess að áríðandi embættisbréfum yrði greiðlega komið áfram. Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir póstferðum til baka frá Bessastöðum.

Fyrsta póstferðin hófst 10. febrúar 1782 og hét pósturinn Ari Guðmundsson. Lagði hann upp frá Reykjanesi við Djúp, hélt þaðan um Ögur til Ísafjarðar og suður um alla firði uns hann kom 15. febrúar að Haga á Barðaströnd. Þar bjó Davið Scheving, sýslumaður. Þar sem pósturinn hafði aðeins örfá bréf meðferðis þótti sýslumanni ekki svara kostnaði að senda Ara áfram suður, heldur bað hann vermann á leið suður fyrir bréfin. Fleiri urðu póstferðir ekki það árið og það var ekki fyrr en árið 1785 að póstferðir í samræmi við tilskipunina frá 1776 hófust með reglubundnum hætti.

Danska póststjórnin hóf frá 1. mars 1870 að annast póstferðir milli Danmerkur, Færeyja og Íslands. Um það leyti voru póststöðvar stofnaðar í Reykjavík og á Seyðisfirði og sérstakur póstmeistari skipaður á árinu 1872. Hinn 26. febrúar það ár var gefin út ný tilskipun um póstmál á Íslandi og rekstur póstþjónustu falinn sérstakri ríkisstofnun, Póststjórninni. Með þessari tilskipun má segja að grundvöllurinn hafi verið lagður að póstþjónustu og að þeirri póstlöggjöf sem sett var 13. september 1901. Geta má þess, í lok þessarar yfirferðar um sögulega atburði í þróun póstmála hér á landi, að árið 1873 var fyrsta íslenska frímerkið gefið út.

Áður en ég sný mér að frv. sem hér er til umræðu langar mig til þess að fara nokkrum orðum um þróun póstmála í Evrópu í nútíðinni. Á síðustu árum hefur Ísland gegnt aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og er skuldbundið til að innleiða þær tilskipanir ESB sem samþykktar eru um póstmál.

Í frumvarpi til póstlaga sem lagt var fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi á árinu 1996, og sem varð að lögum nr. 142/1996 var í athugasemdum fjallað ítarlega um tillögur að tilskipun um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu Evrópusambandsins og bætt gæði póstþjónustunnar í Evrópu og vísa ég til þess. Þessar tillögur voru samþykktar og gefnar út í desember 1997 sem tilskipun 97/67/ESB, eins og áður segir.

Í tilskipuninni eru sett þau markmið að ráðherraráðið og Evrópuþingið skuli vera búin að endurskoða umrædda tilskipun með frekari opnun póstmarkaðarins í huga fyrir 1. janúar 2000. Þetta markmið sambandsins náðist ekki. Hreyfing komst fyrst á málið á fundi leiðtoga sambandsins sem haldinn var í Lissabon í mars 2000 þar sem samþykkt var að beina því til framkvæmdastjórnarinnar að hraða endurskoðun tilskipunarinnar frá desember 1997.

Það var í lok maí 2000 sem tillögur framkvæmdastjórnarinnar litu dagsins ljós. Samkvæmt þeim er það lagt fyrir ríki sambandsins að eigi síðar en 1. janúar 2003 skuli þau vera búin að færa þyngdarmörk einkaréttar fyrir almenn bréf með utanáskrift og markpóst úr 350 g í 50 g og að fimm sinnum lægsta burðargjald venjulegs bréfs innan lands í gildandi tilskipun verði 2,5 sinnum lægsta burðargjald. Einnig er lagt til að opnað verði alveg fyrir samkeppni fyrir póst til annarra ríkja sambandsins og fyrir hraðpóst.

Þessar tillögur um opnun póstmarkaðarins í Evrópu mundu hafa þau áhrif að um 20% af markaðnum opnuðust fyrir samkeppni næðu þær fram að ganga í stað 3% opnunar samkvæmt gildandi tilskipun. Þessi tillaga framkvæmdastjórnarinnar hefur sætt mikilli gagnrýni frá sumum stærstu aðildarríkjum Evrópusambandsins en önnur lönd styðja hana. Rétt er að geta þess að samkvæmt gildandi póstlögum eru einkaréttarmörkin hér á landi 250 grömm eða 5 sinnum lægsta burðargjald venjulegs bréfs innan lands.

Um miðjan desember 2000 samþykkti Evrópuþingið með miklum meiri hluta atkvæða tillögu þess efnis að ríkjum Evrópusambandsins yrði heimilt að viðhalda einkarétti bréfa og annarra póstsendinga allt að 150 g að þyngd. Þetta gildir um allar tegundir póstsendinga. Málið er með þessu komið til ráðherraráðs ESB.

Þessi samþykkt þingsins var á dagskrá fundar fjarskiptanefndar ráðherraráðsins, en hún fjallar einnig um póstmál, í desember í fyrra. Frakkar sem voru í forsæti á fundinum lögðu fram málamiðlunartillögu sem eins og í samþykkt þingsins innihélt ákvæði um að þyngdamörkin yrðu færð niður í 150 g og að frekari opnun markaðarins byggðist á útspili framkvæmdastjórnarinnar frá því í maí 2000. Ekki tókst að ná fram sameiginlegri niðurstöðu og virðist sem landfræðilegur ágreiningur ríki um tillögurnar.

Svíþjóð tók við formennsku í Evrópusambandinu 1. janúar 2001 og tókst þeim ekki að ná samstöðu um breytingar á pósttilskipuninni á formennskutíma sínum sem rann út 30. júní 2001.

Belgar tóku síðan við forsæti af Svíum og tilkynntu í upphafi síns forsætis að málið yrði á dagskrá en voru ekki bjartsýnir á að þeim tækist að ná samkomulagi um málið.

Samkvæmt nýjustu fréttum frá Brussel hélt fjarskiptanefnd ráðherraráðsins, svo sagt sé frá því hér, fund þann 15. okt. sl. og náði samkomulagi um að leggja til við Evrópuþingið eftirfarandi aðgerð til að koma á frelsi á póstmarkaði á Evrópu, þ.e. að frá og með 2003 verði einkaréttur afnuminn á bréfum sem eru yfir 100 g og að frá og með 2006 yrði einkaréttur afnuminn á bréfum sem eru yfir 50 g að þyngd. EFTA-ríkin hafa ekki fjallað formlega um þessar tillögur né tekið afstöðu til þeirra.

Hvað varðar afstöðu okkar Íslendinga geri ég ráð fyrir að við munum fylgja því samkomulagi sem á endanum næst innan Evrópska efnahagssvæðisins og mun það væntanlega koma til meðferðar síðar.

Þá ætla ég að horfa aðeins til Norðurlandanna og greina frá því í stuttu máli hvernig staðan er í póstmálum þeirra. Í Noregi eru þyngdarmörk einkaréttar miðuð við 350 g. Svíþjóð, engin einkaréttarákvæði eru í sænsku lögunum. Finnsku póstlögin eru að stofni til frá 1994. Engin ákvæði eru í lögunum um einkarétt þar. Það er nauðsynlegt að hv. þm. átti sig á þessu. Í Danmörku eru einkaréttarákvæði í lögunum miðuð við 250 grömm.

Þá sný ég mér að því frv. sem hér er um að ræða. Markmið og nýmæli þessa frumvarps til laga um póstþjónustu er í fyrsta lagi að kveða skýrar á um rétt landsmanna til lágmarkspóstþjónustu, í samræmi við fyrrgreinda tilskipun Evrópusambandsins, og er í því sambandi tekið upp hugtakið alþjónusta í stað hugtaksins grunnpóstþjónusta sem er notað í núgildandi lögum. Með alþjónustu er átt við póstþjónustu sem landsmenn skulu hafa aðgang að á jafnræðisgrundvelli.

Aðaláhrif þessara breytinga eru að í stað þess að gildandi lög leggi íslenska ríkinu á herðar skuldbindingar um þjónustu við landsmenn veitir ríkið samkvæmt frumvarpinu aðilum rekstrarleyfi fyrir alþjónustu með ákveðnum skilyrðum. Með veitingu rekstrarleyfis leggur ríkið þær skyldur á rekstrarleyfishafa að tryggja landsmönnum alþjónustu með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði. Til þess að ná megi fram þessu markmiði er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt samkvæmt frv. að leggja kvaðir á rekstrarleyfishafa, einn eða fleiri, um að þeir veiti alþjónustu á starfssvæði sínu. Þessar kvaðir skulu skráðar í leyfisbréf viðkomandi rekstrarleyfishafa. Hinar almennu kröfur sem uppfylla skal með alþjónustu eru taldar upp í 6. gr. frv. og eru þær þessar helstar:

að boðin sé þjónusta sem uppfyllir grunnkröfur,

að öllum notendum sem búa við sambærilegar aðstæður sé boðin eins þjónusta,

að þjónustan sé veitt án mismununar af nokkru tagi, en sérstaklega án mismununar af stjórnmálalegum, trúarlegum eða hugmyndafræðilegum toga,

að þjónusta verði ekki stöðvuð nema af ófyrirsjáanlegum ástæðum,

að þjónustan þróist í takt við tækni-, hagfræði- og félagslegt umhverfi og þarfir notenda.

Í öðru lagi eru sett inn skýrari ákvæði 12. gr. frv. um heimildir sem veittar eru til að starfrækja póstþjónustu. Gert er ráð fyrir tvenns konar heimildum, almennri heimild sem táknar skráningu póstrekanda eftir tilkynningu hans til Póst- og fjarskiptastofnunar og rekstrarleyfi sem þarf til að veita alþjónustu, samanber hér að framan. Almenn heimild felur í sér réttindi til að starfrækja samkvæmt ákvæðum þessara laga og samkvæmt reglum sem Póst- og fjarskiptastofnun setur póstþjónustu aðra en þá sem telst til alþjónustu. Almennum heimildum fylgja ekki sérréttindi. Þessar almennu heimildir koma í stað skráningarskyldu skv. 20. gr. gildandi laga. Einstaklingar eða lögaðilar sem hafa staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins fá samkvæmt ákvæðum þessarar greinar sama rétt og Íslendingar til að sækja um heimildir til að veita póstþjónustu. Þar að auki er gert ráð fyrir því að samgönguráðherra geti með reglugerð veitt öðrum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sams konar rétt. Sams konar ákvæði eru í gildandi fjarskiptalögum um heimildir til reksturs almennra fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu.

Nýtt ákvæði er í 12. gr. um framsal leyfa á þann veg að breytist eignaraðild og kennitala fyrirtækis sem starfar samkvæmt almennri heimild verður að skrá það á ný og sömuleiðis verður að sækja um nýtt rekstrarleyfi ef eignaraðild og kennitala aðila sem hefur rekstrarleyfi breytist enda er upplýsinga um eignaraðild og fjárhagsstöðu krafist þegar sótt er um heimildir. Breytt hlutafjáreign í fyrirtæki sem starfar áfram með óbreytta kennitölu gefur ekki tilefni til nýrrar skráningar eða að sækja þurfi um nýtt rekstrarleyfi.

Af síðasttalda ákvæðinu leiðir að það verður að vera heimilt að afturkalla almenna heimild eða rekstrarleyfi þegar fyrirtæki leggur niður starfsemi sína eða verður gjaldþrota. Sömuleiðis er sett inn ákvæði í 12. gr. um að afturkalla megi leyfi ef alvarlega er brotið gegn settum skilmálum en gert er ráð fyrir því að áður en til slíks kemur verði viðkomandi gefinn kostur á að bæta úr vanrækslu. Í lögum um fjarskipti eru sams konar ákvæði um afturköllun heimilda og hér eru lögð til.

[15:15]

Í þriðja lagi eru tekin inn í frv. ákvæði varðandi kröfur um gæði póstþjónustunnar og ákvæði um söfnun pósts og útburð alla virka daga alls staðar á landinu. Lagt er til að fært verði í lög að póstsendingar innan marka alþjónustu skuli bornar út alla virka daga alls staðar á landinu nema kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður komi í veg fyrir útburð. Slíkar kringumstæður geta verið ófærð og óveður eða sérstakar landfræðilegar aðstæður. Póst- og fjarskiptastofnun gerði árið 1999 könnun á möguleikum þess að koma á slíkum útburði og var kostnaður við hann áætlaður tæplega 100 millj. kr. umfram þáverandi kostnað við útburð pósts.

Verði frv. að lögum er Póst- og fjarskiptastofnun falið að setja kröfur um gæði alþjónustu. Kröfurnar eiga m.a. að lúta að lengstum tíma frá móttöku póstsendinga til útburðar, hver eigi að vera lágmarksopnunartími póstafgreiðslustaða á mismunandi stöðum á landinu, hversu oft póstkassar eru tæmdir á dag umfram lágmarksákvæði 20. gr., þ.e. tæmingar a.m.k. einu sinn hvern virkan dag, og tímasetningar um póst til og frá útlöndum. Ekki er gert ráð fyrir að gæðakröfur verði umfram það sem þekkist í nágrannalöndum. Í viðauka með frv. er fjallað um gæðakröfur í sambandi við póstsendingar milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu, í samræmi við tilskipun 97/67/EB. Í 22. gr. frv. er sagt að gæðakröfur póstþjónustu innan lands skuli taka mið af þeim.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að ég fól Póst- og fjarskiptastofnun --- og nú ætti hv. þm. Jón Bjarnason að hlusta (JB: Já.) í staðinn fyrir að ganga úr salnum --- ég fól Póst- og fjarskiptastofnun með bréfi 27. apríl 2001 að gera úttekt á pósthúsum úti á landi og setja reglur um aðstöðu í pósthúsum vegna samninga við fyrirtæki um rekstur þeirra. Úttekt á völdum pósthúsum fór fram á liðnu sumri og hefur stofnunin síðan unnið að söfnun upplýsinga um póstmagn sem um pósthúsin hefur farið og um áætlaðan sparnað Íslandspósts vegna sameiningar reksturs pósthúsanna við annan rekstur.

Þau pósthús sem valin voru eru:

1. Pósthús sem eru alfarið í rekstri Íslandspósts, þ.e. á Hvolsvelli og Bolungarvík.

2. Pósthús þar sem Íslandspóstur hefur samið við banka eða sparisjóð um að sjá alfarið um afgreiðslu pósts, þ.e. Reyðarfjörður, það er samningur þar við Sparisjóð Norðfjarðar, og Flateyri, en þar er samningur við Sparisjóð Önundarfjarðar.

3. Pósthús þar sem Íslandspóstur hefur samið við einhvern annan aðila en banka eða sparisjóð. Ákveðið var að skoða öll þau pósthús þar sem gerður hafði verið samstarfssamningur við aðra aðila en banka eða sparisjóði, en þau eru á eftirtöldum stöðum: Varmahlíð, Hofsósi, Vík í Mýrdal, Stað í Hrútafirði og Króksfjarðarnesi.

Herra forseti. Úttekt þessi hefur borist ráðuneytinu og er hún mjög forvitnileg. Nú þegar hefur verið beint til stjórnenda Íslandspósts hf. að taka tillit til þeirra ábendinga og athugasemda sem þar koma fram.

Það er alveg ljóst sem kemur fram í þessari skýrslu og mér kom satt að segja ekki á óvart eftir að hafa skoðað aðstöðu á nokkrum þessara staða, að Íslandspóstur þarf að bæta úr. Ég mun fylgja því fast eftir bæði gagnvart stjórn fyrirtækisins Íslandspósts og mun fara yfir það með forsvarsmönnum Póst- og fjarskiptastofnunar að þessu verði fylgt fast eftir. En þessi lög eru m.a. til þess sett að svo megi verða.

Þá vil ég taka fram varðandi setningar reglna að Póst- og fjarskiptastofnun telur sig ekki hafa ótvíræða lagaheimild til þess að setja reglur um afgreiðslustaði. Það kom satt að segja nokkuð á óvart. Í frv. því til laga um póstþjónustu sem hér er til umræðu er því, eins og áður hefur komið fram, skýrt ákvæði þannig að ekki þurfi að velkjast í vafa um það og mun stofnunin innan tíðar hefja undirbúning og gerð slíkra reglna í trausti þess að frv. hljóti samþykki Alþingis.

Í fjórða lagi er rétt að greina frá breyttum ákvæðum frá gildandi lögum um jöfnunarsjóð alþjónustu. Lagt er til að jöfnunarsjóður verði sérstakur sjóður í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar en ekki hluti af fjárhag hennar eins og gildir fyrir jöfnunargjald í gildandi lögum um póstþjónustu og lögum um fjarskipti. Ástæðan er fyrst og fremst sú að fjárlagatillögur stofnunarinnar eru samdar áður en þörf fyrir jöfnunargjöld næsta árs liggur fyrir og er þess vegna ekki hægt að tryggja samræmi þar á milli. Verði frv. að lögum óbreytt mun ekki koma til álagningar jöfnunargjalds á árinu 2003, þar sem leggja þarf fram sérstakt frv. þar að lútandi fyrir 1. janúar 2002, þar sem álagningarhlutfallið er lögfest.

Hæstv. forseti. Ég hef hér að framan greint frá helstu nýmælum frv. svo og markmiðum þess. Áður en ég lýk máli mínu vil ég nefna fáein atriði til viðbótar.

Í 29. gr. frv. eru ákvæði sem að nokkru leyti eru nýmæli sem á að vera hægt að beita í sérstökum tilfellum þegar samgönguráðherra telur brýnt að leggja út í framkvæmdir eða sértæka póstþjónustu sem ekki heyrir undir alþjónustu og ekki er hægt að reikna með að skili arði. Slík tilfelli geta tengst almannaheill, öryggismálum, umhverfisástæðum eða byggðasjónarmiðum. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þessa verði að jafnaði greiddur úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

Þá vil ég nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir að einkaréttur ríkisins haldist að mestu leyti í sama horfi og í gildandi lögum, þ.e. miðað við 250 g þyngd bréfa, svo framarlega sem burðargjaldið fyrir bréfin er minna en fimm sinnum lægsta burðargjald sem gildir fyrir venjulegt bréf innan lands. Þessi ákvörðun byggist m.a. á því að enn er óráðið hvaða breytingar verði gerðar á ákvæðum tilskipunar ESB um póstsendingar í einkarétti, en umræðu um þetta er ekki lokið eins og ég hef getið um nokkuð ítarlega að framan.

Ég vil því næst geta um tvö atriði sem eru í gildandi lögum en ekki í frv. Hið fyrra er að ákvæði gildandi laga sem heimila Póst- og fjarskiptastofnun að veita íþróttafélögum, skátafélögum, hjálparsveitum og öðrum sambærilegum aðilum að annast póstþjónustu er ekki að finna í frumvarpinu. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að með frumvarpinu er þeim sem óska eftir að skrá sig sem póstrekendur á sviði annarrar póstþjónustu en alþjónustu gert auðvelt að skrá sig sem póstrekanda með almennri heimild, en á hinn bóginn verður að telja að með hliðsjón af ítarlegum kröfum sem gerðar eru til rekstrarleyfishafa sem annast alþjónustu sé varasamt að veita áhugamönnum leyfi til að veita póstþjónustu sem telst til alþjónustu. Því má bæta við að frá samþykkt þessa ákvæðis á Alþingi 2. júní 1998 hefur engin umsókn um slíka heimild borist Póst- og fjarskiptastofnun, frá íþróttafélögum eða öðrum.

Hitt atriðið sem ég vil nefna er að í 6. gr. frv. er tekið fram að póstsendingar með dagblöðum, vikublöðum og tímaritum falli undir ákvæði um alþjónustu. Í 16. gr. segir að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hagnaði og er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að krefjast þess að rekstrarleyfishafar geri grein fyrir þeim kostnaðargrundvelli sem gjaldskrá byggist á. Með hliðsjón af þessum ákvæðum þykir ekki rétt, nauðsynlegt né jafnvel viðeigandi að samgönguráðherra sé gert heimilt að mæla fyrir um að einkaréttarhafar annist póstmeðferð fyrrgreindra póstsendinga samkvæmt sérstakri gjaldskrá, lægri en fyrir aðrar sambærilegar sendingar, sbr. 14. gr. gildandi laga. Í seinni málsgrein þeirrar greinar segir að Póst- og fjarskiptastofnun beri að bæta einkaréttarhafa upp mismun á burðargjaldi en ekki er þess getið hver skuli vera tekjustofn stofnunarinnar til að mæta slíkum útgjöldum. Niðurgreiðsla á téðum sendingum sem fengin er með álagi á aðrar tegundir alþjónustusendinga verður að teljast óeðlileg. Til frekari stuðnings því að fella niður ákvæði 14. gr. gildandi laga er að hingað til hefur ekki verið talið nauðsynlegt að beita þessu ákvæði.

Þá vil ég að lokum fara nokkrum orðum um rekstur Íslandspósts hf. á síðasta ári og horfur á þessu ári, um ástæður erfiðrar rekstrarstöðu og hvað fyrirtækið hefur gert og er að vinna að til að bæta afkomuna. Ég tel nauðsynlegt að hv. þm. fái smá yfirferð um það um leið og fjallað er hér um þetta frv.

Frá stofnun Íslandspósts hf. árið 1998 hefur ekki náðst viðunandi árangur í grunnrekstri fyrirtækisins. Tap á reglulegri starfsemi árið 2000 var um 100 millj. kr. og horfur á yfirstandandi ári eru að þar verði yfir 130 millj. kr. halli.

Helstu ástæður fyrir þessari afkomu Íslandspósts eru eftirtaldar:

Jaðartekjur hafa dregist saman. Munar þar mestu um að Landssíminn hefur dregið viðskipti sín frá pósthúsum eins og þekkt er vegna grundvallarbreytinga í starfsemi sem áður var sameiginleg.

Árlegt tekjutap frá árinu 1998 er um 270 millj. kr.

Verulegur samdráttur hefur orðið í greiðslumiðlun, um 20% á ári vegna breytinga á almennum bankaviðskiptum, sem að verulegu leyti fóru áður fram á pósthúsum, m.a. með tilkomu netbanka.

Árlegt tekjutap vegna greiðslumiðlunar er um 25 millj. kr. á ári.

Mikil útgjaldaaukning hefur fylgt þeirri breytingu að landpóstar dreifa pósti fimm daga vikunnar þar sem því verður við komið í stað þriggja daga áður. Bein útgjaldaaukning vegna þessa er um 60 milljónir á ári.

Til að mæta þessum breyttu rekstraraðstæðum hefur Íslandspóstur þurft að endurskipuleggja starfsemi sína. Dregið hefur verið úr starfsmannahaldi og yfirbyggingu fyrirtækisins og unnið er markvisst að hagræðingu í rekstri pósthúsa í samstarfi við önnur þjónustufyrirtæki, samanber það sem sagt er hér að framan um úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar á pósthúsum úti á landi. Í dag eru 25 pósthús rekin í samstarfi og mun sú þróun halda áfram enn um sinn að ég tel. Höfuðáhersla er lögð á að póstþjónustan skerðist ekki og það hef ég undirstrikað mjög rækilega í umræðum í þinginu áður að ég legg áherslu á að póstþjónustan skerðist ekki með þeim breytingum sem verða vegna hagræðingar.

Ofangreindar aðgerðir hafa lækkað árlegan rekstrarkostnað um u.þ.b. 300 millj. kr.

Íslandspóstur hefur einkarétt á dreifingu bréfa undir 250 g að þyngd eða fimm sinnum lægsta burðargjalds bréfa og er það rúmur helmingur af tekjum fyrirtækisins. Fyrirsjáanlegt er að einkarétturinn verði þrengdur á næstu árum og jafnvel afnuminn á fyrsta áratug þessarar aldar, á sama tíma og bréfamagn fer minnkandi. Þó er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um það. Hér einungis um spá að ræða, spá um þróun. Miklu skiptir að fyrirtækið verði vel í stakk búið til að takast á við breytta tíma og samkeppni á öllum sviðum.

Ljóst er að Íslandspóstur þarf að ganga í gegnum breytingar til þess að ná viðunandi hagnaði af rekstrinum. Í dag er reksturinn borinn uppi af tekjum af bréfapósti meðan aðrar þjónustugreinar skila óviðunandi afkomu. Auka þarf hlut og bæta afkomu annarra þjónustugreina og þá sérstaklega bögglaþjónustunnar þannig að hún vegi upp minnkandi hlut bréfapóstsins í rekstri fyrirtækisins.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.