Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 15:33:50 (1033)

2001-11-01 15:33:50# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í svari sínu fannst mér í upphafi hæstv. ráðherra vera að gera því skóna að það kæmi vel til álita að Íslandspóstur yrði seldur. Síðan snerist hann af þeirri leið þegar á leið andsvarið og lýsti því yfir að með þessu væri ekki verið að undirbúa sölu á Íslandspósti.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Mun hann á þessu kjörtímabili beita sér fyrir því að Íslandspóstur eða hlutafé í Íslandspósti verði selt? Eða er hægt að ganga út frá því sem vísu að hæstv. ráðherra muni ekki beita sér fyrir því á meðan hann situr sem samgrh.? Er hægt að ganga út frá því sem vísu að hann muni ekki beita sér fyrir því?

Ég get alveg lýst því yfir líka, virðulegi forseti, og ég vonast til þess að hæstv. ráðherra eigi ekki nema u.þ.b. eitt og hálft ár eftir í embætti.